attachment-body-image-2-1

Út frá þessum aðstæðum fór ég að taka eftir óöryggi hjá börnum mínum.

Innsennt grein: 

Geðtengsl barna

Geðtengsl barna við foreldri hefur verið mér hugfangið málefni síðan ég hóf nám mitt í grunnskólakennarafræðum og byrjaði að vinna með börnum og unglingum. Ég hef einnig lært að hluta til hjúkrunarfræði en náði ekki að klára þar sem ég ákvað að flytja frá Danmörku til Íslands.
Í námi mínu útí Danmörku var ég svo heppin að vinna á fyrirburadeild í 10 vikur, sjálf var ég komin 35 vikur á leið og fékk að upplifa ótrúlegustu hluti. Ég gleymi því aldrei þegar ég skipti og baðaði barn sem fæddist fyrir tímann eða á 35 viku. Þegar ég horfði framan í barnið fannst mér ótrúlegt að litla krílið mitt væri orðið svona stórt og þroskað. Ég held ég hafi áttað mig á mikilvægi geðtengsla þarna á fyrirburadeildinni enda stór hluti umönnun barna í höndum hjúkrunarfólks og lækna, og var því snerting foreldris og afskipti þeirra gífulega mikilvæg.
Geðtengsl myndast á milli barns og þess sem sinnir því að staðaldri og þegar þessi tengsl hafa myndast er fátt sem getur rofið þau.

Því miður getur það þó gerst. Ef foreldri verður til lengri tíma andlega eða líkamlega fjarverandi, getur komið brestur í þessi geðtengsl. Fólk getur lent í ýmsum áföllum sem verður valdur af því að börn ná ekki að fá þá umhyggju, athygli og traust frá foreldrum sínum sem þau eiga að venjast.
Ástæðan fyrir því að ég skrifa þessa grein er að ég hef persónulega orðið valdur af þessum bresti í geðtengslum barna minna við mig. Í mínu tilfelli geng ég í gegnum skilnað og flutninga á milli landa með tvö ung börn. Mikið álag af þessum sökum gerði það að verkum að ég var andlega brotin.

Ég var hrædd og óörugg um það sem ég var að gera og efaðist um sjálfa mig sem foreldri og persónu. Þetta óöryggi var mikið komið frá fyrrverandi eiginmanni mínum sem var duglegur að setja út á mig og það sem ég gerði. Mér fannst oft á tíðum ég ekki geta staðið mig sem foreldri þar sem ég átti erfitt með að einbeita mér að fleiru en að standa mig vel í vinnu, klára skilnaðinn minn og koma okkur almennilega fyrir. Þess fyrir utan varð ég að horfa á móðir mína verða fyrir miklum áföllum á aðeins nokkrum dögum þegar fósturfaðir minn yfirgefur hana og faðir hennar, afi minn dó nokkrum dögum síðar. Bakland mitt var því mjög lítið og var ég úrvinda af þreytu og álagi.

Ég sá um börnin mín eins og ég gat og þurfti. Ég átti þó mjög erfitt um tíma með náin samskipti við börn mín, eins og að kjassa þau og knúsa og leika við þau. Það er þó þannig að þessi samskipti eru það sem geðtengsl byggjast á og eru undirstaða þroska þeirra á öllum sviðum. Þetta eru hlutir sem ég sem grunnskólakennari og foreldri, vissi vel og var meðvituð um allan þann tíma sem ég náði ekki að vera það foreldri sem börnin mín þurftu á að halda og það foreldri sem ég hafði ávallt viljað vera.

Út frá þessum aðstæðum fór ég að taka eftir óöryggi hjá börnum mínum. Þau urðu grátgjarnari, eldra barnið mitt fékk kvíða og það yngra reiðiköst. Þau öskruðu á hlýju og athygli frá mér en ég átti erfitt með að gefa mig alla í þetta mikilvæga hlutverk. Sem betur fer er ég þannig að ég er eftirtektarsöm og greinilega, þrátt fyrir álag, stend ég mig í því að lesa í aðstæður. Ég fann og sá mikilvægi þess að rífa mig út úr þessu strax og gefast ekki upp. Ég væri ekki ein, og þarna væru tvö saklaus börn sem urðu að fá móðir sína heila tilbaka. Ég yrði að gera eitthvað í mínum málum áður en skaðinn yrði of mikill.

Það samviskubit sem fór að naga mig að innan og sú þörf að vilja vera betri mamma og andlega til staðar fyrir börnin mín gerði það að verkum að ég fór að vinna markvisst í sjálfri mér. Ég einbeitti mér að gefa mér sjálfri tíma, gera eitthvað sem var bara fyrir mig og ég fengi útrás og ró á hugann. Ég valdi að hlaupa og stunda líkamsrækt. Þessi klukkutími á dag, sem ég fékk fyrir mig sjálfa án alls áreitis, gerði það að verkum að ég varð rólegri í sálinni. Ég lærði að vera sátt við sjálfa mig, ánægð með árangur minn og hætti að brjóta mig niður og einblína á allt sem ég gerði rangt. Útfrá þessu fór ég að geta gefið aftur af mér. Þessi vitneskja mín um að börn eru öruggari og rólegri ef geðtengsl þeirra við foreldri eru sterk, reif mig áfram í að verða heil aftur. Mikilvægt er að viðurkenna vanmátt sinn fyrir áföllum og muna að enginn er fullkominn.

Sem foreldri er einnig mikilvægt að horfa með opnum og gagnrýnum huga á sjálfan sig. Við tökum þá ákvörðun um að gerast foreldrar barna og því verðum við að sinna þeim skyldum sem fylgja barneignum. Ef við lendum í áföllum þá er mjög eðlilegt að um tíma verðum við líkamlega eða andlega fjarverandi en það er okkar hlutverk og skylda að vinna okkur út úr því eins hratt og auðið er.
Það er ekkert að því og við erum ekki minni manneskjur þó okkur líði illa eða þurfum að leita okkur hjálpar, heldur í mínum huga erum við hetjur því við viðukennum vanmátt okkar og viljum gera betur. Við verðum að gera allt sem við mögulega getum til þess að okkar vanlíðan bitni ekki til frambúðar á börnum okkar.

[useful_banner_manager_banner_rotation banners=5,6 interval=4 width=640 height=240 orderby=rand]

900

Athugasemdir

Allt í einu var ég orðin einstæð móðir sem hafði farið tvisvar til útlanda.

Next Story »

Bleiku skýin og björtu hliðarnar mínar.