122596-121041

Þunglyndi er sjúkdómur

Þunglyndi er svo mikið meira en bara það eitt að líða illa. Allir upplifa vanlíðan og slæma daga.
En þunglyndi er ekki bara vanlíðan í nokkra daga. Þunglyndi byggist á stöðugri vanlíðan, vonleysi og uppgjöf sem getur gengið á í vikur, mánuði og jafnvel ár.

Ég er mjög opin með það að ég þjáist af þunglyndi. Ég á sem betur fer góða að sem sýna mér mikin stuðning. Sá stuðningur er mikilvægur partur af bataferlinu mínu.

Það er mikilvægt að fólk skilji að þunglyndi er raunverulegt heilsufarsvandamál. Raunverulegur sjúkdómur með raunveruleg einkenni. Það versta sem þú getur sagt við einhvern sem þjáist af þunglyndi eru setningar eins og “Þú verður bara að rífa þig upp úr þessu”, “Hættu þessari neikvæðni” eða “Farðu bara út í göngutúr og þá líður þér betur”. Þetta er svo miklu meira en það. Vandamálið er ekki það að göngutúrinn myndi ekki virka, því hann myndi pott þétt lyfta upp deginum. En hann lagar ekki allt annað sem er á bakvið þunglyndið. Stundum er tilhugsunin ein að fara út úr húsi, hræðileg. Það hræðileg að á verstu dögum getur það eitt að koma sér út í Bónus, tekið marga klukkutíma. Ef þér tekst þá að koma þér út í Bónus yfir höfuð. Sem segir okkur það að “rífa sig upp úr þessu”, er alls ekki eins auðvelt og það hljómar.

Þunglyndi fylgir mikil depurð og engin löngun til að takast á við verkefni dagsins. Það getur haft áhrif á hugsanir einstaklingsins, hegðun, tilfinningar og vellíðan. Fólk með þunglyndi finnur oft fyrir sorg, kvíða, tómarúmi, vonleysi, pirringi, skömm og eirðarleysi. Þeim getur einnig fundist þau vera einskis virði og hjálparvana. Þau missa oft áhuga á eitthverju sem áður veitti þeim mikla ánægju. Þau halda illa athygli, eiga erfiðara með að muna hluti og forðast það að taka mikilvægar ákvarðanir. Í verstu tilfellum hefur fólk hugleitt, reynt að fremja eða tekist að fremja sjálfsvíg.

Það er algengast að fólk sem þjáist af þunglyndi, þjáist einnig af kvíða.
Eins og ég reyndi að útskýra hér fyrir ofan hefur þunglyndi þau áhrif að fólk vill helst sleppa við að hugsa um hlutina. Kvíði hefur yfirleitt öfug áhrif. Fólk ofhugsar hlutina.
Að þjást af bæði í einu er eins og að vilja hanga heima allan daginn af því þú vilt ekki taka að þér verkefni eða mæta í vinnu og á sama tíma færðu kvíða yfir því af því þú vilt ekki bregðast fólki.
Þú vilt fara út og hitta vini þína af því þú vilt ekki missa þá, en þú ákveður samt að vera heima af því þú hefur ekki orkuna í að sýna áhuga.

Í dag er árið 2015. Íslendingar eru komnir mjög langt áfram í baráttunni um jafnrétti á öllum sviðum. Við eigum öll skilið sömu virðingu, sama hver við erum. Þess vegna kemur það mér alltaf á óvart þegar fólk horfir niður á þá sem þjást af þunglyndi. Það eru enn þá margir sem hafa engan skilning á sjúkdómnum og telja þetta einungis vera merki um veikleika, leti og/eða metnaðarleysi. Eins og að við veljum það að komast ekki lengra í lífinu. Mikið vildi ég óska þess að ég hefði val. Að núna gæti ég staðið upp og ákveðið að allt væri í lagi, og að þá yrði allt í lagi. Það er draumurinn. En nei, svoleiðis virkar þetta víst ekki.

En hinsvegar er rétt að sjúkdómnum fylgir metnaðarleysi, og já jafnvel leti. Þó mér finnist leti ekki vera viðeigandi orð í þessu samhengi. Oft hef ég ekki orkuna til þess að fara fram úr. Ég er alltaf þreytt. Það þreytt að stundum finnst mér eins og ég eigi aldrei eftir að vakna aftur. En ég geri það. Það finnst mér ekki sýna veikleika. Það sýnir styrk.

Það á ekki að vera skömmustulegt að þjást af þunglyndi. Alveg eins og það á ekki að vera skömmustulegt af þjást af líkamlegum sjúkdómum. Stór hluti þunglyndissjúklinga hafa átt erfiðara með eða ekki tekist að ná bata, einungis vegna þess að það skammast sín.

Þess vegna bið ég alla þá sem skilja ekki sjúkdóminn, að lesa sér til um hann. Lærið og leitið upplýsinga. Það eru miklar líkur á því að einn daginn mun einhver nákominn ykkur greinast með þunglyndi og eins erfitt og það getur verið að styðja einhvern sem gengur í gegnum svona flókin sjúkdóm, þá er það jafn gefandi og það er erfitt.
Okkur á öllum skilið að líða vel.

900

Athugasemdir

Óvænta gjöfin fyrir konuna fór úr böndunum!

Next Story »

Ég hoppaði hæð mína úr gleði og var í skýjunum að vera loksins komin með íbúð