freedom

“Þú laðar að þér það sem þú vilt hverju sinni”

Ég er svolítið þessi týpa sem skoðar allar greinar um betra líf, horfi reglulega á The Secret og hef lesið bækurnar hennar Siggu Kling (Orð eru álög og Að lifa er að þora) oftar en ég þori að viðurkenna. Ég er búin að fara með gulum yfirstrikunarpenna yfir báðar bækurnar, krota yfir allt það sem mér finnst merkilegt og merkja með post-it miðum. Ástæðan fyrir þessu öllu saman er að á einhverjum tímapunkti í lífi mínu ákvað ég að nú væri komið gott, að það væri kominn tími á breytingar. Fyrir rúmum þremur árum var ég rosalega óánægð með sjálfa mig og haldin svakalegri meðvirkni sem leiddi til þess að ég var greind með þunglyndi og kvíða á háu stigi. Ég prófaði nokkrar tegundir af lyfjum og “meðferðum” sem mér fannst aldrei hafa nægileg áhrif á mig, svo ég tók mig til og hætti, án læknisráða (sem ég mæli alls ekki með). Það tók mig rúm 2 ár að komast að einhverri niðurstöðu um hvað hentaði mér. Hún var í rauninni búin að liggja fyrir framan mig allan tímann.

Það tók mig smá tíma að koma þessu almennilega inn og meðtaka þessa niðurstöðu. Í byrjun hélt ég að það kæmi allt til mín, það er að segja ef ég myndi hugsa nógu mikið um það, myndi ég ekki þurfa að vinna fyrir neinu. Það er kjaftæði! Að verða hamingjusamur og hafa jákvæða hugsun krefst vinnu og metnaðar. Þú lest ekki tvær greinar á netinu og labbar svo svífandi út úr herberginu. Samt sem áður langar mig til að deila því sem hjálpaði mér að breyta minni hugsun.

.

Breyttu hugsun þinni – jákvæðar hugsanir eru sterkari en þær neikvæðu.

Við þekkjum öll þá manneskju sem hugsar alltaf neikvætt og það vill svo til að allir leiðinlegu hlutirnir koma einmitt alltaf fyrir hana. Við þekkjum líka öll, að þegar eitthvað leiðinlegt gerist fyrir okkur, endar dagurinn á að einkennast af leiðinlegum hlutum. Flestir hugsa um það sem þeir vilja ekki eignast eða vilja ekki hafa í kringum sig og það er akkurat það sem gerist. Ef við breytum hugsun okkar til þess betra, verðum jákvæð og hugsum jákvætt þá einkennist dagurinn af því.

Þú laðar að þér það sem þú vilt hverju sinni.

Hversu oft ætli ég hafi heyrt frá vinkonum minum “Æ afhverju eru strákar svona mikil fífl, þessi var fífl og þessi var fífl og svo kemur þessi og hann er líka fífl”. Hugsunin er bara um það hversu mikil fífl eru í kringum þig, þú laðar að þér þessi fífl og þú endar á því að hafa þá í röð bíðandi eftir þér. Þú dettur í poll og hugsar “Andskotinn, þetta kemur alltaf fyrir mig” og þetta heldur áfram að koma fyrir þig. Stundum er allt í lagi að ljúga aðeins að sjálfum sér og breyta hugsuninni til þess betra. “Þetta kemur aldrei fyrir mig”. Lítill fugl sagði mér að heimurinn sé skapaður þannig að við löðum að okkur það sem við viljum, það sem við biðjum um … ef þið hugsið um það, er það ekki svolítið satt?

Samþykktu mistökin – byrjaðu upp á nýtt.

Yfirleitt snúast mistök um að fyrirgefa. Við eigum oft erfitt með að fyrirgefa, hvort sem málin snúist um að biðjast fyrirgefningar, fyrirgefa öðrum eða okkur sjálfum. Það besta við að fyrirgefa er að við þurfum ekki alltaf að fara til manneskjunnar og gera það. Við þurfum bara að læra að sleppa, að hætta að hugsa um hlutina og fyrirgefa, ekki fyrir hinn aðilann heldur fyrir okkur sjálf. Þegar við lærum að fyrirgefa og samþykkja þau mistök sem við höfum gert, getum við byrjað upp á nýtt og haldið áfram.

.

Tilfinningar og hvað gerist næst?

Það er svo oft sem við gleymum tilfinningunum þegar við tökum ákvarðanir. Tilfinningar hjálpa þér að vita hvort þú sért á réttri leið eða ekki. Stundum eru þær rosalega augljósar og stundum vitum við ekkert hvernig okkur líður. Ef tilfinningin er góð, gerðu það þá! Það eru 98% líkur á að þú sért að taka rétta ákvörðun. Ef tilfinningin er vond, slepptu því! Því eins og ég sagði, eru líkurnar mögulega 98% þar líka.

Breyttu líðan þinni.

Eins og ég sagði áðan þá löðum við að okkur það sem við viljum, að líða illa er eitthvað sem við viljum ekki. Hugsaðu um fallega hluti, syngdu eða dansaðu. Hlustaðu á tónlist! Hefurðu einhvern tímann verið í vondu skapi og hlustað á FM95BLÖ? Þeir eru allavegana meistarar í því að koma mér í gott skap! Hvað gerir þig glaða/n? Gerðu meira af því! Með því að hugsa um eða framkvæma hluti sem gera þig glaða/n, breytirðu líðan þinni til þess betra.

Búðu til þinn eigin heim.

Þú býrð til þinn eiginn heim með því að laða að þér það sem þú vilt. Ég held ég sé búin að pússa þessa setningu ágætlega inn hjá ykkur, en málið er að flest allt tengist henni á einhvern hátt. Talað er um að þú getir laðað að þér hluti, afhverju ætti það ekki að vera hægt ? Án þess að vera með neinar staðhæfingar en ef þú hugsar tilbaka, þegar þú varst lítil/ll, hlutirnir sem þig virkilega, þá meina ég virkilega langaði í, fékkstu þá ekki?

Ímyndaðu þér.

Ímyndaðu þér að þú eigir það, búðu til pláss fyrir það og hugsaðu um það. Ég veit þetta hljómar fáranlega en þegar þú ímyndar þér hlutina eru meiri líkur á því að þú eignist þá. Sumir hafa komið fyrir korktöflu upp á vegg hjá sér, á stað þar sem þau sjá hana reglulega. Á hana hafa þau hengt allsskyns hluti sem þau langar í eða eitthvað sem vantar í líf þeirra til að gera þau hamingusöm. Ósjálfrátt fer heilinn að reyna að útvega þér hlutina, þótt hann þurfi stundum á þér að halda til að hjálpa. Áður en ég flutti norður var ég með mynd af málshætti upp á töflu og á honum stóð “heppinn er sá sem við hug sinn ræður”, þetta þarf ekki að vera flókið.

.

Í framhaldi af þessu öllu saman ákvað ég að skrifa lista, nokkrir hlutir sem mér finnst mikilvægir. Ég skrifaði hann á nokkur blöð og hef sett þau hér og þar um heimilið, er til dæmis með einn í bílnum, annan á náttborðinu og einn í skólatöskunni. Alltaf sama listann, bara á mismunandi stöðum! Alltaf þegar ég sé hann eða eins og staðan er í dag horfi á skólatöskuna eða bílinn byrja ég ósjálfrátt að hugsa um þessa hluti.

Taktu áhættur

Hættu að óttast
Lífið kemur þér áfram, treystu á það
Trúðu á ævintýrin
Láttu þig dreyma og haltu áfram
Fyrirgefðu og þakkaðu fyrir
Elskaðu eins og þú hafir aldrei elskað áður
Sýndu fólki áhuga og þú verður áhugaverður
Brostu, hlæðu og syngdu
Vertu jákvæð, uppátækjasöm og ákveðin
Gerðu það sem þú vilt þegar þú vilt og með þeim sem þú vilt !
Óskaðu þér
Hugsaðu stórt
Lærðu og vertu tilbúin að læra
Njóttu augnabliksins
Hlakkaðu til og skemmtu þér
Opnaðu þig fyrir fólki
Taktu fyrsta skrefið
Hrósaðu, heilsaðu og brostu
Leiktu þér og taktu myndir

Ég elska að læra nýja hluti og hvað þá ef þeir geta gagnast mér. Ég er alls ekki að segja að eftir smá hugarbreytingu að líf mitt sé fullkomið, því það er ekki svo auðvelt. En líf mitt er miklu betra í dag, ég get tekist á við ákvaðanir sem ég gat ekki áður, ég er í jafnvægi og hef lært að lifa með því sem ég get ekki breytt. Ég mæli eindregið með því að þið setjið saman ykkar lista og reynið að fara eftir honum. Hver veit, kannski á hann eftir að hjálpa ykkur.
900

Athugasemdir

Týndu tvíburar fræga fólksins!

Next Story »

Mánuði eftir 15 ára afmælið mitt ráfaði ég inn til vinkonu minnar um miðja nótt.