11794524_10207233874226492_2376843243281415672_o

Mánuði eftir 15 ára afmælið mitt ráfaði ég inn til vinkonu minnar um miðja nótt.

Elín Lára opnaði sig á facebook, gerði status sem margar mundu ekki þora að segja frá.

Hér er hin fínasta langloka því ég skammast mín ekki neitt:

Mánuði eftir 15 ára afmælið mitt ráfaði ég inn til vinkonu minnar um miðja nótt. Við vorum nýbyrjaðar í Verzló og höfðum verið niðrí bæ á bjórkvöldi eða eitthvað. Við urðum viðskila um nóttina, hún fór heim og ég var niðrí bæ með strák. Þegar ég kom til hennar gat ég varla staðið í lappirnar af ölvun. Hún sagði mér að ég hefði ælt á gólfið hjá sér, ég man ekkert eftir því. Hún klæddi mig úr fötunum og setti mig í þurr föt, 2 lopapeysur, 3 ullarsokka, undir sæng, upp við ofn og svaf upp við mig því ég var bara frosin í gegn. Ég man ekki eftir neinu af þessu. Þegar ég vaknaði daginn eftir spurði hún hvort það hefði eitthvað gerst niðrí bæ. Ég gat ekki svarað henni öðru en að ég hefði kannski sofið hjá gæjanum, því ég var bara alls ekkert viss. Ég var með einhvern vott af óskýrri minningu um að það hefði gerst. Þannig missti 15 ára ég meydóminn, á bílstæði (já, á götunni) niðrí bæ. Hann notaði ekki smokk.

Ég þorði varla að nefna þetta við neinn. Ég reif vinkonu mína út úr miðjum tíma og inn á klósett til að fagna því nokkrum vikum seinna að vera á túr og þ.a.l. ekki ólétt. Dagarnir fram að því voru einhverjir ömurlegustu dagar lífs míns.

Ég er ekkert reið út í strákinn afþví ég er 100% sannfærð um að hann hafi ekki skynjað stöðuna rétt. Ég er ekki að kenna sjálfri mér um, ég er bara að segja að það var ekkert illt í hans huga. Hann var eldri og já hann hefði kannski átt að vita betur en hann bara gerði það ekki.

Eftir þetta fór fólk að tala og mér fannst ég bara vera einhver ónýt vara. Mér leið ógeðslega illa og svaf hjá strákum bara afþví þeir ýttu á eftir því. Það er auðvitað persónubundið en ég held að fæstar 15 ára stelpur séu nógu þroskaðar til að þola svona lagað. Eftir ýmis önnur atvik og vesen lenti ég inni á BUGL. Sálfræðingurinn minn þar hvatti mig til að kæra strákinn, og ég hefði vissulega gert það ef ég vissi ekki betur en að hann hafi ekki gert mér illt af ásettu ráði. Ég get auðvitað ekkert sagt hans hlið af sögunni en þetta er mín.

Framhaldið var nokkuð ömurlegt. Annað árið í Verzló var sennilega versta ár lífs míns. Ég varð mjög þungynd, þjáðist af áfallastreituröskun, ýtti öllum frá mér og hætti að mæta í skólann.

Á nánast hverjum morgni reyndi mamma að vekja mig og ég var eins og andsetið dýr, lamdi frá mér, öskraði og klóraði þar til hún gafst upp. Ég sagði við hana eitt kvöld að ég ætlaði ekki í skólann næsta morgun. Hún sagði að ég yrði að fara og mín viðbrögð voru að gleypa 2 fullar lúkur af verkjalyfjum. Ef ég hefði farið að sofa með þetta í maganum hefði lifrin verið ónýt strax sömu nótt. Sem betur fer sá ég eftir þessu næstum strax, ældi eins og ég gat og öskraði á mömmu. Pabbi keyrði uppá slysó á örugglega 150 kílómetra hraða og yfir á öllum rauðum ljósum. Á þessum punkti var ég alveg útúr því. Það er bara með því allra ógeðslegasta að vera haldið niður af ókunnugu fólki á meðan það stingur slöngu ofan í mann og dælir upp úr manni. Það er svo ekkert skárra þegar það dælir ofan í mann lyfjakolum sem soga í sig eiturefnin í maganum, það er einfaldlega viðbjóður. Ég náði að róa mig niður og anda í gegnum nefið meðfram slöngunni þar til ég sá pabba grátandi í dyrunum. Ég held ég hafi aldrei séð pabba minn gráta fyrr en þá og þarna brotnaði ég endanlega niður. Ég lá inni á barnaspítalanum yfir nóttina, 16 ára og nýbúin að reyna taka eigið líf. Ég man að það eina sem ég hafði áhyggjur af var að mamma og pabbi myndu hætta við að gefa mér hvolpinn sem við áttum að fá nokkrum dögum seinna. Af einhverjum ástæðum var þessi hvolpur það eina sem hélt mér gangandi, öll höfum við greinilega mismunandi akkeri og Lísa var mitt á þessum tímapunkti.

Einhvern veginn náði ég svo öllum prófunum um vorið en mig langaði ekki að fara aftur inn í þennan skóla. Ég skipti yfir í Kvennó haustið 2011 og smám saman fór staðan að lagast þökk sé mikilli meðferð og lyfjagjöf. Þetta var auðvitað endalaust upp og niður og sumarið 2012 var ömurlegt í alla staði. En eftir það hefur vegurinn legið smám saman upp á við, þó með óteljandi hlykkjum. Ég er búin að vera hjá svo mörgum meðferðaraðilum og á svo mörgum lyfjum að ég er löngu hætt að halda utan um það. Það tók tíma en núna líður mér bara ansi vel af því ég vann vinnuna sem er nauðsynleg til að ná bata.

Ef einhver hefði sagt mér á þessum tíma að þetta væri þess virði, ég þyrfti bara að halda aðeins áfram og þá gæti ég gert hvað sem er þá hefði ég örugglega sagt þeim að drullast í burtu frá mér. En 6 árum eftir glötuðu menntaskóla byrjun mína og svona 3 árum frá síðasta lágpunkti sit ég hérna og skrifa. Gegn öllum spám þá náði ég að klára framhaldsskóla. Stelpan sem einu sinni fékk bara níur og tíur og var færð upp um árgang rétt skreið í gegnum stúdentsprófið með þrotlausri þolinmæði og hjálp aðstandenda. Ég er byrjuð aftur í íþróttum, eitthvað sem ég hafði stundað alla ævi á hverjum degi en hafði dottið út með öllu öðru í þunglyndinu. Ég er í fínni vinnu í sumar og hef gaman af því að umgangast nýtt fólk á hverjum degi. Ég er á leiðinni í draumanámið mitt í draumaskólanum mínum í haust og hef það bara almennt mjög gott.

Þegar maður er eins langt niðri og ég komst þá þýðir ekkert að lesa svona pistil, manni er hvort sem er bara alveg sama um allt. Þunglyndi er oft þannig að maður finnur ekki fyrir neinum tilfinningum, maður er bara tómur. Stundum var það líka þannig að ég gat ekki hætt að gráta og öskra í koddann minn af vanlíðan. Þegar mamma spurði afhverju mér liði svona illa þá var svarið oftar en ekki “ég veit það ekki, það er engin ástæða”. Mig langaði þannig séð ekkert sérstaklega að deyja því það hefði lagt svo mikið á þá fáu sem ennþá stóðu við bakið á mér og ég hafði ekki kjarkinn í að framkvæma það. Ég hinsvegar óskaði þess daglega að ég myndi bara hverfa og þyrfti ekki að vera til. Þegar maður er of veikur til þess að sinna eigin grunnþörfum eins og að sofa og vakna, baða sig og borða þá hefur maður nákvæmlega ekkert eftir til að gefa öðrum. Þannig þið sem nenntuð að lesa í gegn endilega munið það ef þið þekkið einhvern sem er að ganga í gegnum erfiðleika að þetta eru veikindi eins og hver önnur. Þetta er rosalegt langhlaup og því lýkur í rauninni aldrei. Ég er t.d. á mjög góðum stað en það breytir því ekki að ég þarf að taka lyfin mín alla morgna og kvöld, halda reglu í daglegu lífi og forðast aðstæður sem valda mér kvíða. Það þarf lítið til að slá mig útaf laginu og nokkur högg í röð geta ýtt mér aftur í niðursveiflu. Það er líka eitthvað sem ég mun þurfa að halda áfram að vinna við alla ævi, að byggja sjálfa mig upp aftur til að þola það sem heimurinn leggur á mig.

Mér var ekki nauðgað en ég varð fyrir ömurlegri reynslu sem hafði þessi rosalegu snjóboltaáhrif á lífið mitt. Reynið nú að ímynda ykkur fórnarlamb grófrar líkams- og kynferðisárásar. Ég á sjálf erfitt með það.
Geriði það þó fyrir mig að reyna sýna öllum skilning því við vitum sjaldnast hvað hvílir á baki annarra. Einn nauðgunarbrandari var nóg til að ég kastaði upp inná klósetti í skólanum og mamma þyrfti að sækja mig. Eitt komment um það sem ég sagði eða gerði var nóg til að ég kæmist ekki fram úr rúminu í 2 daga eftir á. Þegar fólk er algjörlega að molna saman að innan þá þarf stundum bara eitthvað eitt lítið skot og það gefur eftir. Hugsum áður en við segjum og gerum, virðum fólkið í kringum okkur og sýnum samúð. Það byggir ekki bara betra samfélag, það getur bjargað lífum.

Það er blessun að eiga góða að sem endast í gegnum svona lagað með manni. Án fjölskyldunnar og þeirra vina sem stóðust álagið (og voffa auðvitað) væri ég ekki hér í dag. Það er engin skömm í því að leita sér hjálpar, en það tekur þó alltaf tíma að samþykkja að hjálpar sé þörf. Ef einhver las þetta og vantar einhvern að tala við, talaðu við mig ef þú vilt. Stundum er betra að létta af sér við einhvern sem stendur manni ekki of nærri. Stundum er líka léttara að tala við einhvern sem að maður veit að skilur af því sá hinn sami hefur gengið í gegnum sambærilega reynslu. Það er engin skömm af því að glíma við geðsjúkdóm. Við myndum ekki skammast okkar fyrir fótbrot eða krabbamein. Ég neita að skammast mín fyrir mitt þunglyndi og mína kvíðaröskun, það er hluti af því hver ég er og ég fíla mig bara frekar vel.https://www.facebook.com/900grillhus

Kv Elín Lára Reynisdóttir

Elín Lára Reynisdóttir

final900

900

Athugasemdir

“Þú laðar að þér það sem þú vilt hverju sinni”

Next Story »

Óvænta gjöfin fyrir konuna fór úr böndunum!