Santa-Claus-christmas-16092432-1024-768

Kæru jólasveinar – Nú eru einungis fáeinir dagar þar til fyrsti bróðir ykkar, Stekkjastaur, leggur leið sína til byggða

Kæru jólasveinar!

Nú eru einungis fáeinir dagar þar til fyrsti bróðir ykkar, Stekkjastaur, leggur leið sína til byggða og því fannst mér tímabært að koma með þarfa áminningu til ykkar allra. Nú búa u.þ.b. 325.000 manns á Íslandi, þar af sirka 70.000 börn (einstaklingar undir 18 ára aldri) og öll eru þau jafn mikið elskuð af foreldrum sínum og aðstandendum. Allir þessir foreldrar elska börnin sín skilyrðis- og takmarkalaust og vilja veita þeim allt sem þeim dreymir um því þau eru, eftir allt saman, litlu gullmolarnir þeirra. Því miður eru þó ekki allir jafn vel stæðir fjárhagslega og þess vegna langar mig að biðja ykkur, elsku jólasveinar, að stoppa í smá stund og hugsa.

Nú er tilgangur ykkar að veita litlum börnum litlar gjafir fram að jólum, til þess að gefa litlu englunum smá forskot á hamingjuna sem fylgir að opna alla litríku pakkana sem kúra undir jólatrénu og eiga eftir að sitja þar óopnaðar í einhvern rétt rúman hálfan mánuð í viðbót eftir að Stekkjarstaur heldur af stað til byggða. Auk þess eruð þið þess valdir að börn eiga, á einhvern töfrandi hátt, léttar með að haga sér betur þegar þau vita að þið séuð á næsta leiti.

Ég elska ykkur, kæru jólasveinar, og hef alltaf gert, allt frá því að ég var lítil stelpa í smekkbuxum með ljósa tíkarspena í hárinu. Þið veittuð mér, ásamt svo mörgum öðrum, svo einstaklega mikla hamingju með töfrum ykkar. Hvert einasta kvöld setti ég mjólk og smákökur út í glugga, til að þakka ykkur fyrir gjafmildi ykkar og hvern einasta morgun var mér launað með ýmsu dóti, líkt og límmiðum, litabókum, nammi, skopparaboltum, spennum í hárið og svo mætti lengi telja! Síðan var farið í skólann og allir jafn spenntir að skoða litlu dótabílana og glænýju Crayola vaxlitina sem sætisfélagarnir hefðu fengið.

Hins vegar, elsku jólasveinar, held ég að þið séuð farnir að gleyma ykkur svolítið í gleðinni og töfrunum. Þvörusleikir gleymdi sér nefnilega aðeins í fyrra og gaf Óla, strák í 3. bekk, iPhone 4 í skóinn, en gaf bekkjarfélaga hans, Jóa, par af sokkum. Þetta olli miklum sárindum hjá Jóa, því hann var búinn að vera svo stilltur og duglegur. Hvers vegna fékk Óli svona rosalega stóra og glæsilega gjöf, sem kostar nota bene eitthvað í kringum 60 þúsund krónur, en hann fékk bara sokka? (Fagmannlegt verðmat: 750 krónur)

Elsku jólasveinar, ég vildi bara minna ykkur á að litlu gjafirnar sem þið skiljið eftir hjá aðdáendunum ættu að vera temmilegar, hvorki of stórar né of smáar. Íhugum hversu mikið eitt stykki banani í skóinn myndi gleðja ungt eintak af okkur sjálfum og hugsum út í hversu sniðugt það er fyrir 8 ára gamalt barn að eiga rándýrt, viðkvæmt tryllitæki líkt og til dæmis iPhone (eða aðra snjallsíma sem veita aðgang að neti og samskiptum við hvern sem er). Moderation is key. Væri ef til vill ekki örlítið sniðugara að geyma stóru gjafirnar á staðnum þar sem þær hafa oftast verið geymdar hingað til, fram að aðfangadag, þ.e.a.s. undir jólatrénu?

 

Ykkar helsti aðdáandi til 18 ára,
Karitas Rán xx

.

Karitas Rán

 

900

Athugasemdir

„Váááá, ertu fáviti eða?“ og þannig lýkur okkar samskiptum.

Next Story »

Taktu þér frídag til að gera “ekki neitt”