preggo-meme

Hvernig er hægt að auðvelda meðgönguna

Það er ótrúlega frábært kraftaverk að ganga með barn en það er hins vegar ekki alltaf dans á rósum. Margt getur komið upp á meðgöngunni sem gerir dagana aðeins erfiðari en þeir væru annars.
Hérna ætla ég að setja upp lista af kvillum sem gætu komið upp á meðgöngunni og hvaða hlutir/athafnir geta aðstoðað við að gera erfiðu tímabilin aðeins auðveldari.
Ég ætlaði að taka saman hvað mér þótti persónulega nauðsynlegt í stuttum orðum en allt sem fram kemur á þessum lista var algjör nauðsyn að mínu mati og gerði meðgöngu mina mun betri en hún hefði annars verið.

Morgunógleði
Margar hverjar fá morgunógleði og misjafnt hvað hentar hverri og einni eftir því hve slæm ógleðin er. Gott ráð fyrir sumar er að passa að fara ekki svangar að sofa og jafnvel hafa tekex, ritz kex eða annað álíka snarl á náttborðinu hjá sér til að narta í áður en stigið er framúr rúminu. Mikilvægt er að muna að innbyrða nægan vökva ef um uppköst er að ræða og finna eitthvað sem þú þolir að borða því líkaminn og barnið þarf næringu.
Athugaðu að ef ógleðin er mjög mikil getur verið nauðsynlegt fyrir þig að fá lyf hjá lækni svo endilega nefndu ógleðina við þína ljósmóðir.

Þreyta
Hver kannast ekki við að vera ólétt og vera ótrúlega þreytt, hvort sem það eru fyrstu vikurnar eða þær síðustu. Mundu að hvíla þig við hvert tækifæri sem þér gefst, það er mikið að gerast í líkama þínum og þú þarft hvíld, þvotturinn í körfunni eða óhreini potturinn má alveg bíða á meðan þú leggur þig. Ef þreytan hefur mikil áhrif á þig og virðist ekki lagast við hvíld gætir þú þurft að taka járn en ljósmóðir þín getur kannað það með þér.

Svengd
Ertu alltaf svöng ? eða kannski aldrei svöng ?
Mundu bara að borða mat sem veitir þér þá næringu og vítamín sem þú þarft. Hins vegar ef þú hefur ekki lyst á neinu nema súkkulaði þennan daginn, fáðu þér þá súkkulaði, það er betra en að innbyrða ekki neitt. Daginn eftir færð þú þér svo jafnvel fisk eða kjöt. Það má alveg svindla meðan þú ert ólétt ef þú manst bara að passa líka upp á hvaða næringu þú ert að fá.

Fótapirringur
Þessi endalausi fótapirringur, það er spurning hvort þú verður geðveik á honum á undan eða maki þinn sem er að reyna að sofa en rúmið gengur til eins og í versta öldugangi. Það sem getur minnkað fótapirring er að fara í kalt fótabað rétt fyrir svefninn, sofa með fæturna undan sænginni svo þér verði ekki of heitt á þeim, biðja maka þinn um að nudda iljarnar svo vöðvarnir nái slökun en einnig getur verið gott að fá sér magnesium fyrir svefninn ef þetta er að hafa áhrif á svefninn þinn.

Svefn
Það er oft sagt við konur sem eiga von á barni að þær eigi að njóta þess að sofa áður en barnið kemur því þá fái þær engan svefn. Eftir að ég kynntist meðgöngu sjálf þá er þetta eitt mesta bull sem ég hef heyrt, hver sefur eiginlega á meðgöngu ? það er erfitt að koma sér fyrir, verkir í bakinu eða grindinni, fótapirringur, kúlan er alltaf fyrir, hungrið tekur yfir stuttu eftir að maður leggst upp í, fyrir utan hvað rútínan getur brenglast þó það ami ekkert að ! Það þarf ekki að vera neinn vottur af verkjum eða öðru að angra þig en samt liggur þú andvaka ALLA nóttina.
Nei ég er ekki að reyna hræða þig, einfaldlega mundu að sofa þegar þú getur sofið, það skiptir engu máli hvað klukkan er, hvort það sé stutt í venjulegan svefntíma eða þú sért nýlega vöknuð, ef þú ert þreytt og hefur tök á að vera sofandi, vertu þá sofandi ! Öll hvíld skiptir máli.

Verkir í baki og/eða grind
Það getur haft svo ótrúlega mikil áhrif á eigin líðan ef grindin eða bakið er verkjað.
Heitt bað gerir ótrúlega góða hluti fyrir verkina (getur einnig notað lavender olíu í baðið fyrir frekari slökun). Ég persónulega fór í bað 2 – 3 á dag þegar ég var sem verst og það er bara ekkert að því.
Snúningslak þegar þú sefur er ein mesta snilld sem til er því þú getur snúið þér án þess að vera eins og hvalur á þurru landi. Ekki vanmeta snúningslakið og halda að það sé bara fyrir þær sem eru með grindargliðnun eða bara fyrir þær sem eru með virkilega stóra kúlu. Fáðu þér snúningslak frekar fyrr heldur en sienna.
Brjóstagjafapúði er eitthvað sem flestar mæður kaupa fyrir brjóstagjöfina ef ég væri þú þá myndi ég fara út í búð strax í upphafi meðgöngu og velja þér púða – Sofðu svo með púðann á milli fóta og eins og þér finnst henta best, þetta mun án efa bjarga grindinni þinni helling ! Jafnvel getur þetta komið í veg fyrir að þú fáir í grindina á meðgöngunni.
Nudd er svo ótrúlega himneskt almennt og sérstaklega á meðgöngu ! Hvort sem þú lætur maka þinn nudda aumu svæðin eða ferð til fagaðila þá er alveg ómissandi að fá gott nudd.
Sund getur hjálpað mikið við að halda líkamanum góðum hvort sem þú ferð sjálf í sund eða á viðeigandi sundnámskeið
Jóga er bráðsniðugt fyrir líkama og sál og sniðugt að fara í allavega í prufutíma í meðgöngujóga og sjá hvort það henti þér ekki.
Jógabolti til að sitja á heima fyrir getur gert heilan helling fyrir grindina því hún hvílist betur þegar setið er á boltanum.

Samdrættir
Samdrættir eru í sjálfu sér ekki hættulegir á meðan þeir eru fáir og verkjalausir en geta verið leiðinlegir til lengdar, got getur verið að fara í bað eða leggjast út af og hvíla sig. Stundum gæti verið nauðsynlegt að taka paratabs/panodil og sofna smá stund til að ná niður samdráttum. Ef þú hefur hins vegar áhyggjur af samdráttum, þeir koma með verkjum eða þú ert hreinlega bara ekki viss hvort þeir séu hættulausir þá er um að gera að hringja í þína ljósmóðir eða niður á kvennadeild og ræða við ljósmóðir þar sem leiðbeinr þér með framhaldið.

Brjóstsviði/bakflæði

Þessi óbærilegi brjóstsviði sama hvað maður borðar, jafnvel þó þú fáir þér bara vatn ! Rennie virkar fyrir margar hverjar ef brjóstsviðinn kemur örsjaldan og er ekki óbærilegur en lyf sem heitir omeprazole/ Losec mups er himnasending ! Ein tafla á hverjum morgni (ein seinnipart ef þú ert mjög slæm) og það eru mjög miklar líkur á að þú þurfir ekki að upplifa brjóstsviða restina af meðgöngunni.

Þungt að anda

Þegar líður á meðgönguna og barnið orðið stórt getur verið mjög þungt anda og tilfinningin jafnvel eins og þú sért að kafna. Þetta er sérstaklega vandamál þegar setið er og jafnvel þegar þú liggur. Passaðu að þegar þú situr getur gert mikinn mun að sitja bein í baki og lyfta höndum beint upp í loft til að auðveldara sé að anda. Það getur til að mynda verið sniðugt að sitja á jógabolta þar sem það auðveldar þér að sitja bein í baki og hvíla grindina í leiðinni. Þegar þú liggur er mælt með að liggja á vinstri hlið fyrir súrefnisflæði þitt og barnsins en forðast að liggja á bakinu því það truflar flæðið.


Hafðu hins vegar alltaf í huga að sama hvað þú lest á netinu eða heyrir frá fólki, ef þú hefur áhyggjur eða spurningar skaltu hringja beint í þína ljósmóðir eða niður á fæðingardeild og ræða það sem liggur þér á hjarta, það er engin fyrirspurn *of kjánaleg* til að hringja og fá ráð fagaðila.

900

Athugasemdir

Baráttan í lífi allra

Next Story »

Þegar ég fékk stelpuna mína loksins í fangið þá fann ég ekkert