fuja_do_preconceito_sobre_relacionamento

Hvað þarf til þess að stoppa okkur?

Hvað þarf til þess að stoppa okkur? Hvað þarf til þess að bjarga okkur?

Verkefni sem var unnið fyrir ráðstefnu, geðhjálpar.

Hvað þarf til þess að stoppa okkur? Hvað þarf til þess að bjarga okkur?

Við þökkum fyrir þetta tækifæri til þess að koma skoðunum okkar til skila.

Við ætlumst til þess að ráðamenn hlusti, átti sig á vandanum og framkvæmi svo í kjölfarið.

Það sem er ekki í lagi:

Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að viðurkenna strax í upphafi að það er ekki til ein lausn fyrir alla.

Þó við séum erfiðir skjólstæðingar verða menn að muna að við erum börn fram að 18 ára aldri. Það þarf að halda fast utan um okkur en um leið af virðingu. Fæst okkar ráða við að verða edrú þegar við erum börn en flest reynum við það þegar við verðum eldri. Það er nauðsynlegt að skilja á milli vanda barna og fullorðinna.

Við þekkjum allt of mörg dæmi um að ungmennum með geðræn vandamál og fíknisjúkdóma sé vísað frá bráðamóttöku geðdeildar vegna þess t.d. að þau eru undir áhrifum eða vegna plássleysis. Bráðamóttakan er líka aðeins opin frá kl. 12:00-19:00 á virkum dögum og 13:00-17:00 um helgar. Þessi móttaka er þess eðlis hún þarf að vera opin allan sólarhringinn og það á ekki að senda fárveikt fólk heim og segja því að koma ef því versni. Utan opnunartíma er fólki vísað á bráðamóttöku í Fossvogi en við höfum reynslu af því að þar hefur mjög veiku fólki verið vísað frá.

Það er ekki í lagi að allir þurfi að fara í gegnum sama ferli í kerfinu sama hvar þeir eru staddir í neyslu eða geðrænum veikindum. Þrettán ára sprautufíkill og sextugur áfengissjúklingur þurfa mismunandi úrræði.
Fólk er komið mislangt í neyslu og hefur mismunandi bakgrunn og bakland. Það þarf mjög einstaklingsmiðuð úrræði, meta hvert tilfelli fyrir sig. Skortur á eftirfylgni eftir meðferð er óþolandi staða eða löng bið, það þarf að hjálpa fólki strax eftir að úr meðferð er komið. Þess má geta að ein algengasta orsök þess að fólk fer aftur í neyslu eftir meðferðir er að fólk leitar í sama farið og sömu vinina. Það er mikil áskorun að gjörbreyta lífi sínu og erfitt að gera það án mikillar hjálpar.

Það er oft allt of mikið samskiptaleysi milli stofnanna og jafnvel deilda innan sömu stofnunar.
Maður þarf alltaf að vera að útskýra sömu hlutina aftur og aftur, fara í gegnum sama ferlið aftur og aftur. Maður er einhvernveginn hlutgerður eins og pakki sem þarf að stimpla og tengist engum einum starfsmanni persónulega.
Á göngudeild geðdeildar getur maður lent í því að tala við marga mismunandi geðlækna í greiningarferlinu sem er mjög óþægilegt. Þess má geta að það er mjög löng bið eftir greiningum og allt getur gerst á meðan fólk bíður.

Það er einnig búið að loka of mikið af langtímaúrræðum fyrir ungmenni síðustu árin, tvær okkar hafa verið vistaðar á slíkum úrræðum en tvær biðu lengi á biðlista en fengu ekki inn.
þetta á ekki að viðgangast!
Úrræði sem vantar:

Það vantar fleiri langtímaúrræði fyrir ungmenni með tvíþættan vanda. Það er ekki til neitt úrræði sem tekur á báðum vandamálum.
Það þarf að vera meðferðarúrræði sem byggir á 12 spora kerfinu en þar sem alltaf er aðgangur að sérfræðingum s.s. geðlæknum, sálfræðingum og læknum.

Það vantar gistiskýli fyrir heimilislaus ungmenni. Það er nauðsynlegt að aldursskipta slíkum úrræðum svo ungmenni séu ekki að gista eða búa innan um eldri fíkla.

Stuðningur við unga fíkla og aðstandendur þeirra er sérstaklega mikilvægur. Á aldrinum 12- 18 ára er fólk oft ekki tilbúið til að horfast í augu við vandann hvort sem hann liggur í neyslu eða geðrænum erfiðleikum. Getan til þess er oft ekki til staðar og þess vegna er aðgangur að sérfræðingum og úrræðum s.s. innlögnum mikilvægur. Foreldrar þurfa líka mikinn stuðning og aðstoð til að styðja við börn sín.

Það þarf að viðurkenna mikilvægi þess að fólk með reynslu af fíkni-og geðsjúkdómum vinni í meðferðarúrræðum. Meðferðarlegt gildi þess að einn fíkill hjálpi öðrum á sér enga hliðstæðu því einn fíkill getur best skilið og hjálpað öðrum fíkli.

Það vantar sárlega eftirfylgni/áfangaheimili þar sem fólki er hjálpað út í lífið á ný eftir meðferðir. Það er mismunandi hvers konar eftirfylgni hentar sjúklingum eftir því hvaða vanda þeir eru að glíma við, eins skiptir aldur máli.

Við höfum hingað til státað af góðu heilbrigðiskerfi. Ef sú er raunin hvernig er þá hægt að líta fram hjá svona stóru heilbrigðisvandamáli, sem snertir allar fjölskyldur á einhvern hátt.

Á síðastliðnum tveimur mánuðum hafa 5 ungir einstaklingar
sem við þekktum látist af völdum fíkniefna eða sjálfsvígs.
við viljum taka fram að það gætu verið fleiri
þetta voru einstaklingarnir sem við þekktum!
Hefði verið hægt að hjálpa þessu unga fólki?
Hversu mikils virði er eitt mannslíf?
Hversu hár má fórnarkostnaðurinn vera þegar sparnaður ríkisins er annars vegar?

 

Höfundar: Glódís Tara, Súsanna Sif jónsdóttir, Sunneva Ýr Sævarsdóttir, og Sara Helena Blöndal.

900

Athugasemdir

Farið er mjög nálægt eldgosinu með GoPro myndavél!

Next Story »

HALLÓ EITURLYF ég tek börn frá foreldrum og foreldra frá börnum