tumblr_ndkx1iGv5O1ssdfcyo1_500

Gleymist þetta í þínu sambandi?

Það eru ýmsir hlutir sem maður þarf að læra þegar maður er í sambandi, þá erum við að tala um þótt þið séuð búin að vera lengi í sambandi með sömu manneskjunni. Við erum stöðugt að læra nýja hluti, saman og í sundur. Sambönd eru oft stormasöm og suma dagana elskum við maka okkar meira en aðra dagana, það er allt í lagi! Við erum tvær manneskjur sem erum að reyna að finna það út hvernig við eigum að lifa einu lífi saman og það er oft erfitt. Mig langar til að benda ykkur á nokkra hluti sem er gott að muna, sérstaklega á erfiðum tímum og þegar maður er búinn að vera lengi í sambandi.

Mundu afhverju þú valdir maka þinn.
Aldrei gleyma hvað það var sem fékk þig til að velja þennan maka en ekki annan, rifjið upp gömul deit. Ef þér finnst eins og maki þinn muni ekki eftir þessu, minntu hann á það. Hvernig var tilfinningin þegar þið hittust fyrst? Hvar var fyrsti kossinn? Stundum getur líka verið gaman að hugsa um það vandræðalega og hlægja af því.

Taliði saman.
Samskipti eru númer 1,2 og 3 í öllum samböndum (með öðrum hlutum að sjálfsögðu). Það er mikilvægt að geta talað um hlutina og geta tjáð sig án þess að vera dæmdur fyrir skoðanir sínar. Ef eitthvað fer í taugarnar á ykkur, taliði um það strax. Góður maki tekur gagnrýni þinni, hann hlustar og hann er tilbúinn til þess að laga vandamálið. Yfirleitt eru vandamálin ekki jafn mikil og maður hefur miklað fyrir sér og því er betra að tala um þau fyrr en síðar.

Munið að hrósa.
Það er mjög mikilvægt að fá hrós einstöku sinnum. Við erum öll eins og lítil börn, ef einhver segir okkur að við seum að gera eitthvað rétt og við sjáum að einstaklingurinn er ánægður með það, þá erum við líklegri til þess að gera það aftur. Stundum er líka bara gott að fá hrós upp úr þurru, þegar maður er ekki að búast við því. Það þarf ekki að vera flókið, það getur verið eitthvað eins og “Þú tókst mjög vel til í dag” eða “Maturinn þinn var æðislegur, þú gerðir þetta mjög vel”. Við erum öll svolítið sek um það að þegar við erum búin að vera lengi í sambandi þá finnst okkur eins og hinn aðilinn viti allt og þurfi ekki að fá hrós þegar hann gerir eitthvað vel en það er ekki rétt. Öllum finnst gott að fá hrós.

Komdu fram við maka þinn eins og þú vilt að hann komi fram við þig.
Þessi gullna regla á auðvitað við um öll samskipti og alla hegðun sem beinast að öðrum aðilum en hún á það til að gleymast. Ekki láta ykkur bregða þegar þið komið illa fram við fólk og það gerir svo nákvæmlega það sama við ykkur – það er ykkur að kenna. Elskaðu, hlustaðu, virtu skoðanir, hrósaðu og vertu hreinskilin/nn við maka þinn. Það er það sem skiptir máli.

Þú ert ekki í sama sambandi og áður og aldrei líkja núverandi við fyrrverandi.
Þú getur verið búinn að vera í þúsund samböndum og þú heldur að þú sért með allt á hreinu. Gleymdu þessu, þú veist ekki neitt. Við byrjum öll á núlli þegar við kynnumst maka okkar og þú ert með hreint borð – þú þarft að vera tilbúinn að læra til þess að viðhalda góðu sambandi. Auðvitað tökum við með okkur reynslu úr fyrri samböndum sem við getum lagt fram á borðið, hugmyndir sem hafa reynst vel og gætu reynst vel í þessu líka en þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta nýtt samband og nýr maki. Og aldrei, aldrei, aldrei líkja núverandi og fyrrverandi saman. Þú færð ekkert úr því og það hjálpar hvorki sambandinu ykkar né þér sjálfum. Þetta á bara eftir að flækja hlutina.

Aldrei fara ósátt að sofa.
Þið hafið heyrt þetta oft og kannski ekki allir sem fara eftir þessu en þið vitið vel að vandamálin hverfa ekki þótt þið talið um þau á morgun. Þau skapa bara meiri pirring og lengra vesen en þetta þurfti að vera til að byrja með. Það er líka svo gott að kúra með makanum sínum, afhverju ætti maður að vilja sleppa því útaf rifrildi?

Þú þarft ekki alltaf að hafa rétt fyrir þér.
Það sem skiptir máli í rifrildum í samböndum er það að þið sættist. Ekki hvort hefur rétt fyrir sér eða hvort heldur lengur út, það sem skiptir máli er að þið komist að sameiginlegri niðurstöðu og þið eruð sátt í endanum. Annars halda rifrildin áfram að koma upp seinna meir, hversu mikið sem þið reynið að flýja þau, fresta þeim eða geyma, þau koma upp aftur – hvort sem ykkur líkar það eða ekki. Þessvegna er mjög mikilvægt að þið reynið að finna lausnina strax. Stundum þarf maður að leggja niður egó-ið sitt og samþykja hluti sem maður er kannski ekki alveg sáttur með – en þannig er lífið, maður fær ekki alltaf það sem maður vill.

Þakkaðu fyrir.
Mundu að þakka fyrir maka þinn og njóta augnabliksins með honum. Við gleymum okkur oft í öllu sem gerist yfir daginn og gleymum að stoppa í smástund fyrir knús eða smá kúr. Það er mikilvægt fyrir ykkur bæði að snertast og sjást af og til. Að hugsa ekki um neitt annað en þig og maka þinn!

Ekkert er heilagt í þessu lífi og við vitum aldrei hvenær eitthvað gerist. Við getum misst maka okkar eins og annað fólk, við getum ómeðvitað vanvirt maka okkar eða hundsað það sem skiptir máli. Ekki leyfa því að gerast í ykkar sambandi, virtu maka þinn og vertu tilstaðar – alltaf.

900

Athugasemdir

Skuggarnir á geðsjúkrahúsinu í Parma, Ítalíu

Next Story »

Baráttan í lífi allra