972163_10201098782298918_631435804_n

Ég var ungur og upprennandi fótboltastjarna…

Einar Áskelsson skrifar:

 

 

IMG_20150331_004626

Fyrsti pistillinn fjallaði um uppgjöf.  Nú vil ég deila reynslu sem fjallar um að ná „sáttina“. Á þeirri göngu kem ég óhjákvæmilega inn á uppgjöfina sem er fyrsta skrefið í átt að sáttinni. Frá fyrstu minningu var ég í fótbolta og þótti snemma mikið efni. Draumurinn var að verða atvinnumaður þó það væri erfiðara þá en nú. Í pistlinum ætla ég að fjalla um hvernig fótboltadraumur getur orðið að martröð og reynsluna við að skapa sér nýja von og drauma.

 

207693_10200195490157179_843175496_n

 

Fljúgum hærra! –.Þegar ég gekk upp úr 3. flokki, 16 ára, var ég tekinn strax inn í meistaraflokk hjá liði í efstu deild. Ég hafði skipt úr uppeldisfélaginu í þetta lið fyrir þetta sumar. Það er saga sem er ekki rúm fyrir hér! Sama sumar er ég valinn í unglingalandslið og ég sveif því mér fannst ég eiga heiminn. Þetta var á mótunarskeiði mínu sem unglingur þar sem ég var bæði „töff“, drakk og reykti, og fótboltadrengur sem þráði að verða dáður fyrir það. Þarna byrjuðu tveir „persónuleikar“ að takast á! Þrátt fyrir að mér gengi vel í fótboltanum þá leið mér aldrei vel inn í mér sem unglingur!  Ég lærði ungur að fela það og leika hlutverk. Af gefnu tilefni. Ekki láta neinn sjá hvernig mér leið!

Í minningunni var þetta sumar fótbolti og skemmtun. Hápunkturinn var þegar ég spilaði á móti Manchester United. Spilaði í sama liði og George Best og hetjan mín Arnór Guðjohnsen. 4 þúsund manns á vellinum og þetta var og er stórkostleg minning. Mér gekk frábærlega í leiknum og fékk mikla athygli í kjölfarið. Á þessum tímapunkti stóðu mér allir vegir færir að láta fótboltadrauminn minn rætast. Ég var í hæstu hæðum!

 

Hafin lækkun.- Skemmst frá því að segja að leikurinn á móti Manchester United varð hápunkturinn á fótboltaferlinum. Ég flaug hátt upp en það var stutt í lækkunina og brotlendingu. Útskýri það. Ég kynntist áfengi 14 ára og í gegnum íþróttir!. Í fótboltanum var skemmt sér við hvert tækifæri. Ég kynntist líka öðrum vímuefnum og fannst það í lagi. Ég lék mér að eldinum allt sumarið án þess gera mér grein fyrir því. Mér fannst ég vera eðal töffari, þegar ég var undir áhrifum! Mig rámar í að einhver hafi haft orð á þessu við mig en ég varð hinn fúlasti út af afskiptaseminni. Algjörlega blindur. Í lok þessa sumars fóru dökk ský að myndast. Ég skipti aftur yfir í uppeldisfélagið eftir að ég reiddist á æfingu. Ég kom úr landsliðsferð á föstudegi, liðið átti leik á laugardegi og venjulega varstu boðaður með símtali. Það var ekki og ég fór á djamm um kvöldið. Áttaði mig á því daginn eftir að ég átti að spila. Þjálfarinn las mér pistil á þessari æfingu fyrir framan allan hópinn. Ég þoldi ekki mótlætið, brjálaðist og skipti um félag! Dauðsá eftir því! Svona var ég. Uppi eða niðri. Stuttu síðar fór ég að missa flugið og fótanna.

 

Brotlending – Á mettíma tókst mér að klúðra hugsanlegum glæstum fótboltaferli. Það var brotlending! Hörð! Ég reyndi að spyrna við fótum en áfengi og vímuefni tosuðu í mig og áhuginn hvarf! Að klúðra fótboltanum, miðað við drauma og væntingar, varð mér áfall. Ég ákvað það ekki né vildi. Fíknin náði tökum á mér. Ég varð þunglyndur og læddist á milli veggja þegar ég var ekki undir áhrifum. Tvö sumur í röð réði ég mig út á land til að spila fótbolta. Í fyrra skiptið lenti ég í fyrsta stóra „bömmernum“. Lent á löngum túr og rankaði við mér í Reykjavík. Fór þaðan með skottið á milli lappana! Hitt sumarið var allt í lagi en þá meiddist ég fyrst í bakinu.

Á þessum tímapunkti var ég stefnulaus, ábyrgðarlaus, háður áfengi og vímuefnum án þess að vita það. Ég forðaðist gömlu vinina úr fótboltanum því þeir voru „að slá í gegn“ og ég þoldi það ekki. „Skömmin“ stýrði mér. Fyrir mér var lífið búið fyrst fótboltinn var farinn!

Á 2-3 árum klúðraði ég lífinu og var heppinn að hafa lifað það af.

 

Björgun – Ég leit í spegil og sá alltaf einhvern flottan fótboltatöffara. Spegillinn sýndi það ekki. Hann sýndi ungan mann í tómu tjóni. Haustið 1989 fór ég í meðferð eftir fyrrnefnt 2-3 ára rugl. Man tímasetninguna því þá varð liðið sem ég lék með á móti Manchester United, Íslandsmeistari í fótbolta. Ég kominn á slopp og félagarnir að fagna titli. Aðdragandinn að meðferðinni var hræðilegur. Ég fór því ég gat hvorki réttlætt eða logið. Loks stóll fyrir dyr. Engin meðvirkni. Ég kláraði meðferðina og fór að reyna að lifa án „hjálparmeðala“.

 

Að fóta sig!. Eftir meðferð komst ekkert annað að en sýna að ég gæti komist í fótboltann aftur! Varð þráhyggja. Ég fór að mæta á æfingar. Var á undirbúningstímabili og mikið um þrekæfingar. Ég mætti en fann að mér þótti þetta erfitt. Var langt á eftir hinum strákunum og var að gefast aftur upp! Þá meiðist ég í hnénu og beint undir hnífinn í uppskurð. Nokkrum mánuðum síðar var hitt hnéð á mér skorið upp. Og mér sagt að einbeita mér bara að því að lifa venjulegu lífi en gleyma öllu sem heitir keppnisíþróttir! Þetta varð mér annað áfall sem ég réði ekki við og gat ekki sætt mig við þessa staðreynd.

Afneitun –  Ég varð enn þunglyndari og dró mig í skel. Ég stóð frammi fyrir enn einu valinu. Að horfast í augu við staðreynd og vinna úr málunum? Eða að þrjóskast og berja hausnum í stein? Í þessu tilfelli valdi ég það síðarnefnda.  Svo mikil „skömm“ í mér að hafa klúðrað ferlinum þrátt fyrir úrskurð lækna um hnén. Ég reyndi margt, alltaf í von um að ég gæti skellt mér á æfingu og byrjað að spila í efstu deild!  Það var engin rökrétt hugsun á bak við þetta. Dómgreindarleysi. „Afneitun“. Léleg „sjálfsvirðing“. Ég þorði ekki og vildi ekki horfast í augu við „staðreynd“. 24 ára gamall. Útbrunninn. Lúser! Þannig leið mér. Ég var aftur kominn í „rússnesku rúllettuna“.

 

Sáttin! –Ég var kominn svo langt niður andlega að ég eyddi heilu sumri í að hugsa um leiðir til að stytta mér aldur. Þó mér liði illa þá var ég mjög „aggressivur“ í framkomu og sumt fólk forðaðist mig! Hér stóð ég frammi fyrir valinu að lifa eða…deyja! Fyrst vildi ég deyja. Losna við þjáninguna. En með góðra manna hjálp valdi ég betri kostinn. Hér komum við aftur að vonleysinu, uppgjöfinni og vanmættinum! Ég gafst upp.  Ekki átakalaust! Vanmáttugur þáði ég útrétta hjálparhönd. Ég var 28 ára þegar ég hóf gönguna að því ómögulega, að öðlast sátt. Eftir 10 ára flótta! Sáttin náðist samhliða því að ég sættist við „sjálfan mig“ sem manneskju. Ekki flókið nei en erfitt, já. Að geta horft í augun á mér í spegli og sjá réttu spegilmyndina. Tala og hlusta. Vera tilbúinn að bjarga sér.

Sigurvegarinn

er sá sem sýnir auðmýkt í að leita sér hjálpar! Það gerði ég og fylgdi ráðleggingum. Enda fóru kraftaverkin að gerast. Engin flugeldasýning heldur hægt og rólega. Nánast eins og að læra að ganga á ný því ég þurfti að læra frá grunni mannleg samskipti og skilgreina eigin tilfinningar!

 

Nýta reynsluna – Í dag er þetta tímabil minning. Særir mig ekki og stjórnar ekki minni líðan. Ég horfi jákvætt á þetta og er stoltur að hafa þó fengið að spila á móti Manchester United og með George Best. Mér tókst alla vega þetta. Mín reynsla er að byrgja ekki inni vanlíðan hvort sem þér finnst hún lítil eða stór, kjánaleg eða ekki o.s.frv. Um leið og ég gat talað um mín mál, við aðila sem skildu mig, þá var auðveldara að vinna úr þeim. Ég kunni þetta ekki og þurfti að læra. Síðan fór ég að rækta aðra hæfileika. Það var enginn hörgull á þeim! Það var ævintýralegt að komast úr hugarfarinu að vilja enda líf sitt, vonlaus. Yfir í að sjá ljós í enda ganganna og trúa að ég gæti öðlast líf. Bara venjulegt líf. Ég var búinn að útiloka þann möguleika.

 

Hjálpaðu sjálfum þér – Andstæðan við sátt er gremja. Ég verð gramur og fúll en tek fljótt eftir því, eða aðrir  benda mér á það. Þá get ég „leiðrétt“ mig. Það kallast „sjálfsskoðun“. Hjálpaðu sjálfum þér. Með að gefa af mér er ég að því.  Ég fæ stór „verðlaun“ fyrir að koma þessu frá mér. Vellíðan og ánægju! Fer ekki fram á meira. Ástæðan fyrir því að ég get gefið þessa sögu, er að ég er laus við „skömm“, „afneitun“ og öðlast „sátt“ og „hugarró“. Þó við gerum mistök þá eigum við ekki að vera brennimerkt alla ævi. Ég fékk tækifæri sem ég nýtti mér og var stálheppinn að hafa fengið það. Ég kynntist því að vera á barminum að deyja. Ég lifði af. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur mínum æðri mætti. Þess vegna verð ég alltaf að minna mig á, viðhalda þakklætinu og um leið sáttinni.

 

Takk fyrir – Eins og í fyrra pistli þá er ég að skrifa um mína reynslu eins einlæglega og heiðarlega og ég get. Það er tilgangurinn. Enginn annar. Svo er öllum frjálst að nýta sér mína reynslu. Eða ekki. Það er líka val!

Lifið heil, lifið vel og verið góð við hvort annað. Það er alltaf þörf áþví.

FB_IMG_1426680719322

900

Athugasemdir

Ég var ekki glæpamaður, ég var barn í vanda.

Next Story »

Knúin til breytinga.