BPR_Render

Eftir nokkur svona atvik þá þorði ég loksins að spyrja einhvern aðila sem var að hlæja að mér af hverju svo væri!

Pistill eftir Gulli Bergmann

Birtingar leyfi frá vin okkar Gulla, takk fyrir frábæran pistil.

Í tilefni af umræðunni undanfarið þá langar mig að deila með ykkur þegar nektarmynd af mér var dreift um allan skólann. Vettvangurinn var Valhúsaskóli og ég var 13 ára, nýkominn í gaggó.

Þennan dag var ég algjörlega grunlaus, en hvert sem ég fór þá var einhver sem hló að mér. Sum hver bentu reyndar líka.

Eftir nokkur svona atvik þá þorði ég loksins að spyrja einhvern aðila sem var að hlæja að mér af hverju svo væri. Önnur manneskja svaraði fyrir hann með háði og gerði grín að nekt, typpi, standpínu og mér í sama “brandara“. Ég skyldi ekki hvaðan á mig stóð veðrið.

Það tók þó nokkrar manneskjur til að fá svar. Það var erfitt að spyrja í fyrsta sinn, eftir allan hláturinn og bendingarnar, en það varð erfiðara með hverri manneskju sem ég þurfti að spyrja. Ég fékk loksins að vita það; strákur sem ég þekkti hafði komið með nektarmynd af mér og var að sýna hana um allan skóla.

Ég varð furðulostinn á svipinn og fann fyrir undarlegum sting í hjartað. Svipbrigði mín vöktu kátínu hjá fólkinu í kringum mig sem hló þeim mun meira.

Á meðan ég leitaði uppi strákinn sem var að sýna nektarmyndina af mér þá fóru alls kyns hugsanir í gegnum kollinn á mér. Eitt áttu þær allar sameiginlegt; þær voru sjálfsásakandi. Það var mér að kenna að einhver var að dreifa nektarmynd af mér um allan skólann.

Með hnút í maganum fann ég hann loksins og spurði hann hvort að þetta væri satt. Hann svaraði játandi eins og það væri eðlilegasti hluturinn í heiminum. Svör hans fyrir af hverju hann var að þessu voru á þá leið að þetta var hans mynd og hann mátti gera það sem hann vildi við hana.

Ég vissi ekki einu sinni hvaðan þessi mynd var, hvenær hún var tekin eða við hvaða aðstæður. Ég hafði ekki hugmynd. Ég varð að fá að sjá þessa mynd. Svo ég bað strákinn sem var með nektarmyndina af mér um leyfi til að fá að sjá hana. Hann hélt nú ekki. Hann var sannfærður um að ég myndi eyðileggja hana og hann var ekki búinn að klára að sýna hana að eigin sögn. Enda var þetta myndin hans.

Hann sannfærðist loksins á að leyfa mér að sjá hana, með því skilyrði að ef ég myndi skemma hana á nokkurn hátt þá myndi hann láta framkalla ótal eintök af myndinni og dreifa út um allt. Þetta var þrjóskur og framtakssamur strákur og ég vissi að hann myndi standa við orð sín.

Skjálfandi tók ég við myndinni. Þarna starði ég framan í sjálfan mig. Á myndinni var ég kviknakinn, með eitthvað asnalegt sigurbros á andlitinu og böllinn í höndinni eins hann væri einhver verðlaunagripur.

Þessi mynd hafði verið tekin í einhverjum fíflalátunum og þá með yfirskriftinni að það var “engin filma” í myndavélinni.

Án þess að vera búinn að jafna mig á því sem ég sá, þar sem að nú vissi ég hvað allir sem höfðu hlegið og bent á mig höfðu séð, þá upphófst eitt erfiðasta augnablik ævi minnar. Ég hef sjaldan upplifað mig jafn valdlausan. Ég þurfti að skila myndinni.

Ég hef eytt mörgum árum í að hata sjálfan mig fyrir að hafa ekki rifið hana í milljón búta og sagt honum að hoppa upp í rassgatið á sér. Ég hef spilað þetta augnablik aftur og aftur í huga mínum. Ég sé mig rétta honum myndina eins og barinn hundur. Það var líka það sem gerðist.

Hann og vinur hans löbbuðu frá mér hlæjandi. Ég stóð þarna á ganginum í Való, umkringdur af fólki, en ég hef sjaldan upplifað það að vera jafn einn. Mig langaði til að æla. Ég vissi ekkert hvað hann myndi gera við myndina héðan af og sá enga leið til að hindra hann í neinu sem hann áætlaði sér með hana. Hann átti filmuna og gat framkallað eins mörg eintök og hann vildi.

Ég kláraði ekki daginn í skólanum og þetta var ekki í síðasta skiptið sem ég skrópaði út af þessari mynd og þessari upplifun minni.

Ég vil taka það fram að ég áfellist ekki strákinn sem dreifði myndinni. Hann var bara 14 ára sjálfur, einu ári eldri en ég og ég er sannfærður um að hann hefði aldrei gert þetta ef hann hefði áttað sig á þeim sársauka sem þetta myndi valda mér. Nú erum við ágætis kunningjar og mér þykir vænt um manninn sem hann er í dag. Enda vorum við líka góðir vinir einhverjum árum fyrir þetta atvik. Ég hef náð að sundurgreina atvikið og einstaklinginn og það þroskastig sem hann var á þegar þetta átti sér stað.

En það gat ég ekki 13 ára gamall né í fjölda mörg ár eftir það. Ég hafði ekki þroskann til að tækla málið eins og ég myndi gera í dag eða hefði gert ekki mörgum árum síðar. Okkur fullorðna fólkinu er hætt við að gleyma því hvernig það er að vera táningur og hversu viðkvæmur maður getur verið á þessum árum. Við gleymum því oft hvað nekt og allt sem henni er tengt spilar stórt hlutverk á þessum árum.

Ég ætla ekki að bera mína upplifun saman við upplifanir annarra og með því gera lítið eða mikið úr minni upplifun. Hún var svona.

Ég vildi óska að einhver með eitthvað vald í skólanum hefði rifið myndina af honum. Ég hafði enga trú á valdi kennarana en ég vonaðist til að jafnaldrar hans í 9. bekk myndu stoppa hann eða einhver í 10. bekk myndi taka fyrir þetta rugl í honum, elta hann heim og brenna filmuna. En það stoppaði hann enginn. Ég veit ekkert hvað hann sýndi mörgum þessa mynd.

Það var enginn sem sagði mér að þetta væri ekki mér að kenna. Það var enginn sem sagði mér að hann mætti ekki gera þetta. Og af ótta við hefnd, með fjölfölduðum útgáfum af þessari mynd, þá var ég heldur betur ekki að leita uppi fólk til að segja mér það. Enda skammaðist ég mín fyrir þessa mynd og þær spurningar sem ég var viss um að vöknuðu hjá fólki um mig fyrir vikið.

FreeTheNipple átakið er margþætt og snýr að miklu meira en að gengisfella til dæmis þá mynd sem var dreift af mér, en Guð minn góður hvað ég hefði þegið að hafa svona átak í gangi á þessum árum. Einhverja samstöðu í samfélaginu sem segði mér að það var ekki ég sem gerði eitthvað rangt, að það væri ekkert að mér og mínum líkama.

Ég átta mig á því að ég er að tala um kynfæri mín en konur að tala um sjálfsagðan rétt sinn til að geta farið úr að ofan við sömu samfélagslegu aðstæður og karlmenn. En engu að síður þá veit ég að þetta átak hefði styrkt mig og gengisfellt þessa mynd í mínum huga. Og það er í raun eini hugurinn sem skiptir máli; hugur þess einstaklings sem verður fyrir þessu.

Ég á mér því von fyrir fólkið sem les þetta og reyndar bara fólk yfirhöfuð:
– Ég vona að ef þú ert að rægja þetta átak eða ef þú ert að hlæja og gera grín að þessu átaki, að þú hættir því. Þetta er mögulega nú þegar að styðja einhvern sem þú þekkir eða mun koma til með að gera það.
– Ég vona að ef þú ert á móti þessu átaki að þú tjáir þig málefnalega um það.
– Ég vona að ef þú styður þetta átak en hefur ekki tjáð þig um það þá gerir þú það.
– Ég vona að þú sem hefur tekið þátt í þessu átaki, þá annað hvort með myndum eða stuðningi, áttir þig á hvað þú ert að gera góða hluti og það oft fyrir fólk sem sér enga leið úr þessu eitt síns liðs.

Virðingarfyllst,
Gulli Bergmann
‪#‎FreeTheNipple‬

[useful_banner_manager_banner_rotation banners=5,6 interval=4 width=620 height=220 orderby=rand]

900

Athugasemdir

Að gefa barni sínu brjóst er ekki tabo á islandi og hefur ekki verið i mörg ár!

Next Story »

Hattur Kjóll og skór, Elskar Tattoo skegg og svartan bol