sdgfs

Býr drusla í fataskápnum þínum?

Nei ég bara spyr. Ég var eitthvað að skoða minn og mér til mikillar gleði fann ég enga, að mínu mati að minnsta kosti.

Nú hef ég gaman af því að versla, og get eytt heilum degi í ekkert nema verslunarleiðangur. En aldrei nokkurntímann hef ég rekist á flík sem er merkt “drusla” , “druslulegt”  osfr.

Samt sem áður heyri ég mjög reglulega hvað þessi og hin sé nú druslulega klædd, og ekki bara frá strákum heldur stelpum líka. Nú spyr ég, hvernig stendur eiginlega á þessu?

Hvað þýðir það eiginlega að vera druslulega klædd? Hvaða flíkur eru það? Og hver ákveður hvað er druslulegt og hvað ekki?

Nú fyrir stuttu var ég stödd á ónefndum skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur og ákveð að skreppa inn á klósettið og fríska aðeins upp á andlitið, enda búin að taka nokkur dansspor og svitinn leyndi sér ekki, ég hélt allt meikið hafði orðið eftir á dansgólfinu! Um leið og ég geng inn heyri ég stelpu pískra að vinkonu sinni “ojj í hverju er hún eiginlega? Djöfull er þetta druslulegt, léti ekki sjá mig dauða í þessu!” Jahá! Hvíti toppurinn minn sem mér fannst klæða mig svo vel er allt í einu orðinn druslulegur!

Ég bað þær með bros á vör að hjálpa mér að taka miðann af toppnum, því ég hafði ekki tekið eftir því að hann sé merktur druslulegur. Þær störðu á mig og komu ekki upp orði. Þetta fékk mig til að hugsa og opna aðeins umræðuna um þetta.

Af hverju er toppurinn minn talinn druslulegur en buxurnar ekki t.d? Var þetta afbriðissemi? Eða voru þetta vörusvik? Ég meina…aldrei var mér sagt frá því að þetta væri druslulegt þegar ég keypti toppinn, á ég jafnvel rétt á skaðabótum? Ætla að athuga málið!

Mig langar svolítið að fá svör við þessum spurningum mínum.

Ég tel að hér sé líklegast um afbriðissemi, minnimáttarkennd og almennt óöryggi að ræða. Fáfræðina þarf varla að nefna.Ef þú ert ein af fyrrnefndum týpum, hvernig væri að þú myndir líta í eigin barm áður en þú ferð að mynda þér skoðanir á öðrum? Nú ef svo vel vill til að þú sért 100% ánægð með sjálfa þig og hefur ekkert út á neitt að setja, ég er með spurningu til þín…Hvað hef ég sem þú hefur ekki, svona fyrst þú ert að einbeita þér að mér?

Fötin mín og þín eru einmitt föt, ekki druslur né drusluleg. Ef þú vildir meina að ég sé drusla, þá hefði ég svarað þér eitthvað á þessa leið: Hvers vegna er það þinn höfuðverkur? Hver er mælikvarðinn annars? Er lífið þitt ekki nógu áhugavert? Hafði sæti strákurinn við barinn meiri áhuga á mér en þér? Fyrirgefðu, það var hans val, ekki mitt né þitt. Hver setti þig í dómarasætið? Hef ég rétt á að dæma þig sem alkóhólista vegna þess að ég hef séð þig drekka 6 bjóra í kvöld á sama tíma og ég náði að klára bara 2? Nei, kannski þykir þér bjórinn betri en mér, kannski finnst þér gott að drekka hratt, kannski varstu að keppa við mig og ég vissi ekki af því? Já, kannski ertu alkóhólisti en það er ekki mitt að dæma. Er það?

Þú ert líka í yfirþyngd, á ég að kalla þig hlussu sem veit ekki hvar world class er staðsett? Prenta kannski út götukortið og merkja með stórum rauðum ex? Kannski ert þú að æfa stíft , kannski er holdafarið þitt afleiðingar af sjúkdómi sem þú berst við? Eða lyfjum sem þú ert að taka? Kannski borðar þú 1/3 af því sem ég borða og brennslan bara svona hæg? Já, kannski. En það er ekki mitt að dæma. Er það?

Stelpur, orð hafa afleiðingar. Komdu fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig, jájá höfum allar heyrt þetta áður, er það ekki? En hvernig væri að við byrjum að haga okkur samkvæmt því?

Nú erum við konur um allan heim, að berjast fyrir jafnrétti eins og ljón en á sama tíma erum við að uppnefna hvor aðra. Nú eða fötin sem við klæðumst. En það er sama, þykir það í lagi að koma með svona athugasemdir ef þær koma frá konum?

Mér finnst það að minnsta kosti ekki í lagi. Hvað finnst þér?

 

xxx Shoelover

900

Athugasemdir

Kynlíf – Frá hans sjónarhorni – Frammhald

Next Story »

Skuggi yfir þjóðinni?