11015864_10204667159893066_672999042_n

Bleiku skýin og björtu hliðarnar mínar.

Gloría Gordjöss skrifar

Ég veit að samkvæmt uppskrift annara ætti ég að vera í nokkrum boxum á þessu stigi lífsins, fertug konan , ég á að búa í boxi sem kallast hús og ég á líka að vera í boxi sem kallast gagnkynhneigt samband á milli konu og karlmanns, ég á að lifa samkvæmt boxi um að allt eigi að vera í rútínu og niðurnjörvuð dagskrá tröllríði mínu daglega lífi… ég á líka að lifa í boxinu um menntun og nám, ég á að hafa stúdentspróf og einhverja fína gráðu sem festir mig í enn einu boxinu um hugsun, trú er enn eitt boxið sem við viljum setja okkur í og lífsstíll er annað box.
Kona einsog ég ætti að vera í matarklúb, paraklúbb, saumaklúbb, kiwanisklúbb og kvenfélagi, foreldrafélagi og bekkjarráði í skóla barnanna minna með allar kúrfur á hreinu, allar einkunnir og kennitölur á hreinu, ég ætti að vera búin að borga alla reikningana mína og kaupa í alla mata mánaðarins, skipuleggja sumarfríið og spara.

Ég ætti að geta sprangað eins og fótósjoppuð á bikiní um sundlaugarbakkana með krakkana mína í stafrófsröð á eftir mér og þau hlustað opinmynnt á hvert einasta orð sem ég hef að segja, ég á að borða samsettar máltíðar með hárrettum ballans af næringarefnum á hárréttum tíma og á kvöldin leggst ég ekki þreytt í sófann og sofna með slefið lafandi útúr mér, nei nei ég fer að föndra og skipuleggja næsta mánuð með tilliti til lánskjaravísitölu leigumarkaðarins og kaupmáttar íslenski krónunnar svo fátt eitt sé nefnt. Og þar sem ég er vísitölukonan þá á ég auðvitað mann og við gerum það undir sæng á fimmtudagskvöldum á milli hálf tólf og eitt .

Ef ég hefði kosið XD seinast þá væri ég liklegast búsett í garðabænum með tvö komma eitt barn og ætti þægilegan eiginmann sem ynni sem voðalega settlegur framkvæmdastjóri einhverstaðar í drapplituðu fyrirtæki, ég ætti jafnvel kött eða hund af einhverju sparikyni sem væri tannburstaður á greiddur jafn oft og börnin mín. Og væri auðvitað sýndur jafn reglulega og dóttir mín á fimleikasýningum og sonur minn á fótboltaleikjum.

Ég ætti burberrys kápu sem var keypt á florida í fyrra og gengi um með lyklakippuna frá tyrklandi með áföstum lyklunum af fína jeppanum mínum sem við hjónin keyptum úr kassanum í hittíðfyrra, í vel snyrtu hárinu væri ég með snúð og ég hefði sólgleraugu…. augljóslega færi ég svo og eyddi deginum í kringlunni eða smáralind að leita uppi bestu kaupin í meiki og barnafötum, uppskriftablöðum og eldhúsáhöldum.

Ef ég lifði svona þá gæti ég alveg eins skotið mig strax.
En það er bara af því að það er ég.. ekki einhver annar.

Sumir lifa svona lífi á mjög hamingjusaman hátt og ef til vill eftir fimm eða tíu ár finn ég mig við eldhúsborðið í einbýlishúsinu mínu við Arnarnesið með hinum dásamlega eiginmanni mínum að drekka latté í burberysnáttsloppunum okkar.

Í bóka /blogg/net/tímarita/pistla/upplýsingaflóði nútímans eru mjög áberandi svokallaðar sjálfshjálparbækur og oft eru þær skrifaðar af einhverjum ægilega fínum og flottum gúrúum sem hafa marga fjöruna sopið á lífsleiðinni, verið við dauðans dyr og fundið opinberun lífsins í því ferðalagi.

Nú hef ég lesið milljón pistla á vefnum um hvernig eigi að ná sér í maka, hvernig eigi að grennast og hvernig eigi að haga sér á djamminu og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta er alltsaman eitthvað sem flestir vita eitthvað um og þessir sem skrifa pistlana eru eflaust með mikið og gott vit eftir sína víðtæku reynslu sína á því sviði.
Oft þegar fólkið í kringum mann uppgötvar einhvern allsherjar sannleika þá er það jafnvel eitthvað sem við hin höfum vitað í langan tíma, og þetta atriði rennur upp fyrir einhverjum vini eða kunningja allt í einu á stuttum tíma og hellist yfir viðkomandi einsog einhverskonar opinberun, kannski frelsast hann, kannski skiptir hann um trú, kannski hættir hann að reykja, drekka eða skiptir algjörlega um lífsstíl.

Flestir læra hlutina jöfnum höndum en aðrir taka einmitt svona þroskastökk og geta bara ekki beðið eftir að geta ausið úr sýnum óþrjótandi viskubrunni yfir hvern sem á vegi þeirra verður ….. hvort sem viðkomandi þarf á því að halda eður ei.
.
Breytingar eru til góðs og merki um þroska, það hefur aldrei verið góðs viti að staðna í lífinu, það er til hamingjusamt og þroskað fólk sem vinnur við það sama alla ævi, er gift sama makanum í 50 ár og stundar sömu áhugamálin alla ævi en það heldur huganum við og fer á starfsmenntanámskeið og endurhæfir sig, vinnur sig í gegnum erfiða lífsreynslu og talar um sínar tilfinningar, skellir sér svo í að stunda fjölbreytt félagslíf þess fyrir utan og er nýjungagjarnt. Margir aðrir skipta sí og æ um vinnu og starfsvettvang til að fá fjölbreytnina, sumir læra alltaf eitthvað nýtt og nýtt.

Allir læra eitthvað en sumir eru það óheppnir að festast í einhverju sem þeir hafa ekki ráðið við að vinna sig í gegnum , kannski ræður neikvæðni og fortíðarþrá þar ríkjum og einmitt þessi þrúgandi þögn þar sem tilfinningar eru bældar niður og lokaðar inni …oft veit fólk ekkert af þessu eða lifir í svo mikilli afneitum og meðvirkni fjölskyldunnar að oft einangrast heilu fjölskyldurnar í kringum fortíðardrauga sem aldrei hafa fengið viðurkenningu. Þetta er mjög oft vandamál þar sem erfiðir sjúkdómar ráða ríkjum , misnotkun, ofbeldi og drykkja. Fólk í þessari hræðilegu stöðu brynjar sig upp og fer í vörn um leið og einhver segir óþægilegan sannleika eða „kjaftar frá“.

Það er gott að ögra sjálfum sér og börnunum sínum og halda þroskanum gangandi í staðinn fyrir að vefja börnin í bómul og ofvernda þau, svo alltíeinu standa þau frammi fyrir því einn góðan verðurdag að þau þurfa að taka ábyrgð á einhverju meiriháttar sem aldrei hefur verið gert ráð fyrir í uppeldinu.

Við sem erum foreldrar óskum þess heitt að börnunum okkar vegni vel í lífinu, en þeim vegnar ekki vel ef við stöppum ofaní þau matinn framyfir fermingu eða fylgjum þeim í skólann þar til þau eru orðin sjálfráða, núna í dag eru ekki sömu tímar og í gamla daga þegar við sem erum komin yfir þrítugt þurftum að fara út að leika okkur til að okkur leiddist ekki, það var ekki til internet, það var ekki til gsm sími, og ekki laptop eða playstation, við lékum okkur úti, fengum sár á hnén og lentum í ævintýrum.

Í dag er það barnaverndarmál ef börn ganga í götóttum sokkum og eru ein heima eftir skóla.
Það hefur víkkað sjóndeildarhring fólks að ferðast með öðrum ferðamáta en það er vant, fara út fyrir þægindarammann, sumir geta ekki án bílsins verið og fyllist óhugnaði við að þurfa kannski að taka strætó með ókunnugu fólki . Aðrir geta ekki hugsað sér að fara í sund þar sem það hugsar bara um það sem allir aðrir geta gert í sundi, ef þú hugsar alltaf um það vesta sem getur gerst þá gerist kannski bara allt það versta af því þú einblínir á það allra versta og dregur neikvæðni til þín með hugarorkunni.

Við reynum öll okkar besta og ef við erum dugleg að leita að ráðleggingum og leiðbeiningum hjá okkur vitrara og reyndara fólki þá á þetta allt saman eftir að blessast, ef við vöðum áfram í eigin villu og svíma og vitum betur en allir hinir þá eigum við bara eftir að verða sjálfmiðlæg og erfið í samskiptum við aðra.

Það er ekkert öllum gefið að geta átt góð og gefandi samskipti, sumum er það bara ekki í blóð borið að geta talað frjálslega við aðra manneskju og kannski hefur það verið innri mantra viðkomandi að aðrir séu bara fífl sem ekkert vilja skilja og þá kemur það fyrst uppí huga þess neikvæða þegar hann rekur sig á smá ljónsunga í veginum. Svo kemur hann ekki orðum að hlutunum og allt fer í háaloft af því að hann var búinn að ákveða að þetta yrði erfitt og leiðinlegt.

Þetta minnir mig á brandarann um manninn sem var að keyra útí sveit og það sprakk dekk á bílnum hans, manngreyið var ekki með tjakk og þurfti að ganga smá vegalengd að næsta bóndabæ. Hann dró úr sér kjarkinn eð því að tala við sjálfan sig á leiðinni um að bóndinn væri eflaust einhver leiðindadurgur sem ætti tjakk en tímdi nú örugglega ekkert að lána sér hann.

Svona hugsaði hann og fór að búa til samtalið á milli sín og bóndadurgsins í huganum. Alltaf jókst neikvæðnin. Loks kom maðurinn að bænum , bankaði uppá og bóndinn kemur brosandi til dyra, maðurinn sagði honum þá að troða tjakknum þangað sem sólin aldrei skini því hann var búinn að byggja upp þetta líka svaka rifrildi í huganum við þennan ægilega leiðinlega bóndadurg.

Kannski er það pointið með þessum pistli að maður getur ekki ætlast til að fólk hugsi einsog maður sjálfur, það er ekki hægt að lesa hugsanir eða tilfinningar annara þegar maður þekkir ekki viðkomandi, málið er að vera sjálfur jákvæður og brosandi því að þá nær maður frekar jákvæðum tengslum við aðra, svo getur maður farið að breyta sjálfum sér og vonast til að geta orðið fyrirmynd annara í góðum siðum og framkomu.
Nú hef ég lesið allskonar skemmtilegar bækur um mátt hugsunarinnar, það er lykilatriði að hugsa jákvætt, það hjálpar aldrei til að gefast upp og verða neikvæður.

Frábær setningu úr einni af þessum bókum, þú getur skilið við makann þinn, flúið landið sem þú býrð í, hætt að hafa samband við ættingja og vini en alltaf siturðu uppi með sjálfan þig.

Og er það eftirsóknarvert að vera með aftursætisnöldrara dauðans í speglinum sem getur aldrei séð góðu og björtu hliðarnar á nokkrum sköpuðum hlut?

Ástæðan fyrir því að ég lærði alltíeinu að sjá hlutina í allt öðru og víðara samhengi er sú að ég fór á námskeið hjá manni sem núna er fallinn frá og aldrei hef ég saknað manns jafn heitt sem ég þekkti jafn lítið, ég grét einsog barn þegar ég frétti að þessi stórkostlegi maður væri fallinn frá. Hann kenndi fólki að það má gera mistök, það má vera maður sjálfur og það má líka hugsa sínar eigin hugsanir og hafa sínar eigin tilfinningar án þess að aðrir hefðu nokkuð um þær að segja, þetta er þitt og enginn getur tekið það frá þér.

þessi maður hét Þorvaldur Þorsteinsson og var stórkostlegur listamaður og rithöfundur, ég mæli með að allir gúggli þennan mann og hlusti á allt sem hann sendi frá sér í máli og myndum og kynni sér Blíðfinn sem var hans sköpunarverk … ég hef sjaldan hitt slíkan mann með eins mikinn karakter og jafn mikla hlýju í hjartanu sínu sem hann útdeildi ósparlega.
Þessi maður hélt námskeið í skapandi skrifum og ég vil meina að hann hafi haldið námskeið í að lifa lífinu með þeirri default stillingu að ALLT breytist.. og það endar ALLTAF öðruvísi en planið stóð til og mín trú er að þessi maður var sendur hingað til jarðar í þeim einum tilgangi að sýna öðrum að hann var búinn að mastera þessa spurningu sem brennur á allra vörum, hver er tilgangur lífsins.

Lokaðu augunum og hlustaðu á manninn tala, hann er ekki að tala skipulega, hann leyfir huganum að reika og hann kannski bullar tóma vitleysu en hann er samt svo leiftrandi klár og þessar pælingar hans smellhitta mann svo í greindarvísitöluna.

Hann opnar hugann og gefur manni óþekkta andagift og það bara á videói.

Ég varð þeirrar lukku aðnjótandi að fara á námskeið sem hann hélt og þá hitti ég hann og nokkra nemendur sem voru leitandi einsog ég að hæfileikunum okkar, hann byrjaði að tala og við hlustuðum í fullkominni aðdáun á þennan mann, og það sem við vissum ekki var að hann lærði nákvæmlega jafn mikið af okkur einsog við af honum, hann dáðist alveg jafn mikið af hverju og einasta okkar jafn mikið og við dáðum það sem kom frá honum, okkur fannst allt vera húðað gulli sem frá okkur kom bara af því að hann hlustaði á okkur og gaf okkur komment fyrir það þessi maður kunni að draga allt það jákvæðasta útúr okkur, ,sama hvað við höfðum litla trú á þvi sem kom útúr pennanum okkar, hann upphóf það og sýndi það með sínum augum, það var alveg sama þó að mér fyndist ég koma með ómerkilega athugasemd eða spurningu, han gaf mér fullkomið leyfi til að eyða hans dýrmæta tíma og hann lét mér líða einsog við værum að skapa ódaulegt meistaraverk saman, allt sem ég hafði um málið að segja vóg þungt og gat jafnvel breytt hans sjónarhorni… allavega fannst mér það.

Enginn maður hefur áður útskýrt hæfileikann til að skapa betur fyrir mér, hann sýndi okkur það að í hvert sinn sem við heyrum hljóð eða brot af lýsingu þá erum við komin í okkar eigin heim, okkar heimur er aldrei einsog aðrir segja að hann sé, þetta er einkaheimurinn okkar og við höfum fullkomið leyfi til að gera allt sem okkur þóknast af því að við höfum skapað þennan hugarheim okkar eftir okkar eigin reglum og eftir þeim atburðum sem við höfum upplifað sjálf í okkar huga, í okkar heimi er ekki bannað að sjá allskyns hluti, öll þekkjum við að það má ekki segja hvað sem er, það verður að hafa áðgát í nærveru sálar.. en inní okkur höfum við engan stoppara, þetta er einsog að dreyma, við ráðum engu um það sem okkur dreymir en allt sem gerist í okkar heimi er okkar heimur. Hann má breytast og veltast um, hann má verða andstyggilegur og hugsa ljóta hluti, óviðeigandi hluti og brenglaða hluti, hann má gera allt væmið og glimmerhúðað, hann má snúa útúr og breyta tilfinningum og hann gerir það líka án þess að fá leyfi til þess, oft hugsum við um eitthvað sem við ætluðum allsekki að hugsa um og fegurðin við okkar eigin skapandi hugarheim og okkar eigin skrif er að þetta má allt verða svona… það getur enginn bannað okkur sjálfum að hugsa okkar hugsanir.

Ég sá þátt um daginn um rannsóknir vísindamanna á því hvernig mismunandi menningarhópar upplifa liti og litasamsetningar, við sjáum litina í kringum okkur á mismunandi hátt þó svo við köllum sólina gula og jarðaberin rauð og himininn bláan…. það ættu allir að vita þetta en skynjum við bláa litinn eins inní okkur, sumir skynja tónlist sem liti , aðrir sjá orð og tilfinningatengja litina, ást er rauð og hatur er svart svona til dæmis.

Þess vegna líður mer bara ágætlega yfir því að vera ekki í boxi af því að það er í raun dæmt til að verða að engu á einhverjum tímapunkti í mínum eða annara augum , á einhverjum tímapunkti í mínu lífi. Þannig að tími box-sins er kominn og farinn, rétt einsog hann mun koma aftur og fara.
Alltaf skal ég læra af þessu lífi mínu og alltaf skal ég þroskast og eldast og að lokum deyja og vonandi komast þá yfir í næsta level tilverunnar.

Og þó svo að ég fari ekki þína Ideal leið þá er ég samt að fara mína fullkomlega gildu og leyfilegu leið sem ég þarf að fara til að ná mínum markmiðum og þau eru ekkert endilega þau sömu og annara marmið né í sömu röð og örugglega ekki á sama leveli heldur þannig að það er alltaf gott að róa sig í gagnrýninni og hugsa um sitt eigið fyrst og fremst áður en maður fer að káfa með skítugum krumlunum í annara manna blómabeði.

Hann Þorvaldur talaði um að í hverri einustu manneskju væri frjósamur jarðvegur og mörg mörg fræ sem öll hefðu sinn eigin blómgunar og vaxtartíma, sum fræ vaxa hægt og önnur hratt, sum deyja, önnur fara í dvala og sumstaðar er jarðvegurinn ekki nógu næringarmikill fyrir fræið til að dafna, stundum gerist eitthvað fyrir garðinn okkar sem breytir honum til betra eða verra, sum fræ eru hörð af sér, önnur ekki og sum þurfa sól og önnur raka, svo koma upp mismunandi skilyrði með tímanum og hvert og eitt fræ getur á einhverjum tímapunkti lifnað og byrjað að spíra.

Hann Þorvaldur teiknaði upp höfuð og axlir, svo krassaði hann sprota upp úr moldinni sem byrjaði við axlirnar og beindi þeim upp í höfuðið á myndinni, hann bjó til arfa, blóm, tré, vafningsjurtir, ávexti og grænmeti, hann bjó til allskyns gras og strá, þessi flóra táknaði alla möguleikana okkar til að verða allt það sem við stefnum að í það og það skipti á mismunandi ævistigum og tímabilum í mínu og þínu og okkar lífi, hver og einn garður óx með þeim skilyrðum sem voru gefin í þeim garði fyrir sig, eins er með hugann okkar, það ræður engin utanaðkomandi vera yfir okkar hugsunum, tillfinningum nema þá bara til að kveikja neistann að einhverju meira, við sjáum um restina.
Við sjálf gefum okkur leyfið til að vera við sjálf.

900

Athugasemdir

Út frá þessum aðstæðum fór ég að taka eftir óöryggi hjá börnum mínum.

Next Story »

Það er ekki lengur byrjað saman og þú ert ekkert smá mikið að pressa á gaurinn ef þú vogar þér..