Vinur minn hann Dan sem er Kanadamaður og alveg gordjöss strákur sagði við mig um daginn (afþví að hann er nú doltið skotinn í mér) að honum hefði aldrei dottið í hug að hann ætti eftir að falla fyrir konu sem væri orðin amma, en hann væri bara kolfallinn fyrir mér sex barna ömmunni (verst að aðdáunin er ekki gagnkvæm, enda ætla ég mér íslending) en það fékk mig til að hugsa um hversu lánsöm ég er…
Það hlutverk lífsins sem hefur gefið mér einna mest er einmitt þetta dásamlega ömmuhlutverk og ömmubörnin mín eru fallegasta og gáfaðasta fólk þessa jarðríkis að mínu mati
Dagurinn þar sem ég fékk að halda á minni elstu ömmustelpu sem verður 13 ára í haust var einn fallegasti dagur lífs míns…Að horfa í augu þessarar litlu fallegu dömu og vita að hún var afleggjari frá mér, og að ég í raun ætti kannski einn fjórða í henni, blóð hennar og hold var partur af minni tilvist hér á jörðu, og ég tala nú ekki um að ég gat leitað að merkjum þess að hún líktist mér kannski pínu lítið, var, og eru forréttindi sem ekki allir fá að upplifa í lífinu, og eftir þennan fallega dag fyrir tæpum 13 árum hef ég aldrei orðið söm !!!
Í dag er ég lukkuleg amma þriggja eða í raun sex barna því að ég fékk þrjú í kaupbæti með tengdasyninum, og hvert og eitt þeirra á pláss í mínu hjarta og merkilegt nokk þá virðist hjarta mitt stækka að umfangi við fæðingu hvers og eins þeirra og lífið gæti ég bara alls ekki hugsað mér án þeirra !
Gleðin sem þau gefa mér í formi fallegra en stundum óskiljanlegra listaverka (kannski smá Kjarval í þeim) fallegu orðin sem ég fæ, eins og “þú ert þúsund sinnum fallegri en sólin amma”, “þú ert besti vinur minn”, “ég elska þig meir en alla” öll þessi orð sem gjörsamlega bræða mann, allar skemmtilegu hláturstundirnar sem ég fæ að upplifa með þeim eins og þegar hann Teddó minn fann uppá því að syngja afmælissönginn í hvert sinn sem hann sá mig þar sem honum fannst þetta tvennt hljóma nákvæmlega eins “amma Linda” og“ammæliidag” og hélt að í hvert sinn sem þessi söngur var sunginn á leikskólanum að allir væru að syngja um ömmu hans !!! Það eru svona minningar og stundir sem eru óborganlegar og hreint ekkert sem ég væri til í að gefa í skiptum fyrir þær.
Eins elska ég það þegar þessar elskur komast aðeins til vits og ára og fara að mynda sér skoðanir á allt og öllu og auðvita hafa “alltaf” rétt fyrir sér og skilja ekkert í þessu gamla og töluvert heimska fullorðna fólki sem fattar bara ekki að “allir” og “alltaf” eru bara fullgild orð, og ekki þarf á nokkurn hátt að rökstyðja þau, svipirnir sem maður fær frá þeim þegar maður reynir að útskýra fyrir þeim að ekki sé æskilegt að fullyrða að allir eða enginn megi allt og að allar skoðanir séu réttmætar er algjörlega kómískur…Augunum er semsagt ragnhvolft og fyrirlitningin sem skín úr augunum á litlu verðandi gelgjunum mínum er bara fyndinn…
En ekki er ég nú viss um að mér hefði þótt þetta fyndið hér áður fyrr þegar ég var að ala foreldra þeirra upp, því að, þá áttu börnin mín að verða fullkomin og verða eins og í fullkominni Hollywood fjölskyldumynd frá fyrri hluta síðustu aldar….En börnin mín reyndust hafa sjálfstæðan vilja þannig að fyrir rest var ég farin að sætta mig við að þetta væru gjörsamlega óferjandi og óalandi börn sem ég átti, og bjóst bara við því að ekkert yrði úr þessum elskum…En þau hafa komið mér verulega á óvart sem fullorðnar manneskjur verð ég að segja, og ég er svo aldeilis hissa á því hvað hefur orðið úr þeim ! Ég virðist semsagt hafa gert einhverja rétta hluti í uppeldinu á þeim.
En barnabörnin eru sko allt annar handleggur ! Þau eru fullkomin, ALLTAF !!! Ég reikna fastlega með því að þau eigi eftir að verða forsetar landsins, ráðherrar, listamenn af bestu gerð, íþróttastjörnur og reyndar er bara alveg sama hvað þau ákveða að verða, þá veit ég amman, að þau verða best í öllu sem þau taka sér fyrir hendur…Og ef ekki, þá eru þau samt æðislegustu börn sem hafa fæðst, og þau eru sko alltaf NÓG af öllu nákvæmlega eins og þau eru hverju sinni….svo einfalt er það…
Það er líka svo gott að vera amma, því að amma hefur sérstakt leyfi til að spilla börnunum, það er ekki sérstakur nammidagur hjá henni heldur “ömmudagur” þar sem nammi er leyfilegt sama hvaða vikudagur er, hún er besti vinurinn, hún dæmir ekki, upphefur, hlustar, fer í gönguferðir, segir ævintýri og miðlar af visku sinni en þarf ekki á nokkurn hátt að vera í uppeldishlutverki mömmunnar og pabbans…Hún er beðin um að koma út að leika, í bíó, á tónleika og í leikhús af því að hún er bara einfaldlega best og skemmtilegust…
Ég fæ verki í hjarta mitt reglulega af stolti og af ást til þessara upprennandi stórstjarna minna, finnst þetta hlutverk alveg æðislegt og þakka Guði mínum reglulega fyrir þessa stórkostlegu blessun….
En ekki er ég hissa á því að hann Dan frá Kanada eða aðrir karlmenn falli fyrir ömmum heimsins, því hvað getur verið meira sjarmerandi en kona sem ljómar af kærleika, er sátt við lífið, hlær reglulega og er uppfull af visku sem hún miðlar af stakri þolinmæði alla daga til afleggjaranna sinna ?
Ekkert að mínu mati…
”Þannig að” …Dan, vertu ekkert hissa á því að þú hafir fallið fyrir fjögurra barna ömmu
Eigið ljúfa helgi elskurnar <3