dream-memory

Allt í einu var ég orðin einstæð móðir sem hafði farið tvisvar til útlanda.

Innsennt grein: / hún kaus nafnleisi.

Mig hefur lengi langað að koma frá mér einhverju lesefni og reynt bæði við að skrifa ljóð, barnabækur, spennisögur og unglingasögur. Mikið af þessu hefur gengið vel og safnar nú góðu ryki í tölvunni minni, ef svo má segja.
Að eiga drauma og vinna ekki að þeim er eitthvað sem ég þekki vel. Mitt líf hefur farið þveröfugt við það sem ég ætlaði mér sem ungri stúlku en að sjálfsögðu er ég mjög sátt hvar ég stend í lífinu í dag.

Þegar ég sá að það vantaði pistlahöfunda á monroe.is ákvað ég að skella mér í þetta. Þá kom upp vandamálið, hvað á ég eiginlega að skrifa um. Margar hugmyndir brutust fram en á endanum ákvað ég að skrifa minn fyrsta pistil um drauma, markmið og hvernig við vinnum að því að láta þá rætast.

Þegar ég var 5 ára gömul, ákvað ég að stefna að því að verða ljósmóðir. Eftir að ég varð eldri ákvað ég að klára framhaldsskóla, vinna smá og ferðast um allan heiminn með bakpoka á bakinu. Flytja til Kaupmannahafnar og læra að verða ljósmóðir. Ég ákvað það að ætla ekki að eignast mann eða börn strax og ég stóð við þetta síðarnefnda.
Margir uppeldis- og sálfræðingar hafa talað um hversu mikilvæg föðurímyndin er. Hún getur haft mikið að segja hvað stelpur leita eftir í fari stráka. Stelpur sem eiga ekki sterka föðurímyndin fara oft í að finna sér maka strax. Þetta er einhver vöntun sem kallar, einhver karlkynsbjörgun ef svo má segja.

Í mínu tilfelli var blóðfaðir minn alki og með geðraskanir. Ég þekkti hann lítið, rétt sá hann tvisvar á ári. Fósturfaðir minn var þunglyndur vinnualki og gaf mér og bróður mínum litla athygli eða ást. Mín föðurímynd var engin og strax þegar ég var 12 ára gömul eignaðist ég minn fyrsta kærasta. Þegar ég upplifði fyrsta kærastan fór ég strax í að vera meðvirk. Gerði allt til að gera honum til geðs, gerðum bara það sem hann vildi gera og leyfði honum að stjórna. Ég gleymdi mér og að hverju ég stefndi enda óörugg og ekki með neitt sjálfsálit. Vissi ekki hvernig heilbrigt samband ætti að líta út enda bara barn og hafði ekki góðar fyrirmyndir.

Þegar ég var 15 ára kynntist ég fyrri barnsföður mínum. Í honum fann ég öryggi enda hafði ég flutt út á land til að fara í skóla og var hálf ein með lítinn stuðning að heiman. Við kláruðum framhaldsskóla, fluttum til Reykjavíkur og hófum háskólanám. Kláruðum námið og þá vildi ég fara að ferðast. Því miður var það ekki stefnan hjá honum svo ekkert varð úr því og við fórum að vinna og 28 ára varð ég ófrísk af mínu fyrsta barni. Strax fyrstu vikurnar komu upp vandamál og við fórum í sitthvora áttina.

Allt í einu var ég orðin einstæð móðir sem hafði farið tvisvar til útlanda. Ég varð döpur yfir hvernig líf mitt hafið farið og ég var reið út í sjálfa mig fyrir að hafa ekki geta gert það sem mig langaði til að gera. Því miður er það þannig að ég gat engum kennt nema sjálfri mér. Eftir að ég eignaðist barnið mitt ákvað ég að fara erlendis í heimsókn. Þegar heimsóknin var hálfnuð kynntist ég manni og við ákváðum að vera saman. Eftir nokkra mánaða fjarsamband tók ég ákvörðun að flytja til hans. Ekki af ást heldur þarna fékk ég tækifæri til að flytja erlendis, og ferðast. Fljótlega kom í ljós að þarna hafði ég gert stór mistök þar sem hann drakk illa og var ekki sá maður sem hann lét sjálfan sig líta út fyrir að vera. Ég gat ekki snúið til baka og sýnt öllum að mér hafi mistekist og því lét ég þetta ganga það langt að ég gifti mig og eignaðist annað barn.

Draumar mínir um að ferðast og vera ein og gera allt sem mig langaði til upplifði ég ekki. Ég grét það alltaf og sá svo eftir að hafa ekki haft þetta öryggi í mér og að vera sjálfstæðari til þess að geta látið drauma mína rætast. Meðvirkni mín var svo sterk að ég vildi bara gleðja og þá hélt ég að ég yrði að gera bara eins og þeir og gleyma öllu því sem einkenndi mig og það sem mig langaði að gera. Ég skildi ekki afhverju ég þurfa að vera alltaf háð öðrum, og geta ekki bara liðið vel með sjálfri mér. Afhverju var mér það svo nauðsynlegt að eiga kærasta/mann….

Í dag líður mér mjög vel. Þó svo að draumar mínir hafa ekki ræst þá hef ég gert milljón aðra hluti. Ég vann mig út úr meðvirkni, lærði að elska sjálfa mig og standa á eigin fótum sem sjálfstæð móðir tveggja yndislegra barna. Ég stend mig vel í uppeldi og vinnu og get líka hugsað um sjálfa mig með líkamsrækt og hollu fæði. Draumar mínir eru aðrir í dag en þeir voru fyrir 25 árum en þeir eru alls ekki síðri.

Með þessu bið ég alla feður um að huga vel að því hvað þeir eru að sýna dætrum sínum. Sýnið þeim hvernig á að koma fram við þær. Gefið þeim ást, hrósið þeim og segið hversu frábærar þær eru. Sýnið mæðrum þeirra virðingu og hvernig karlmenn eiga að koma fram við konur sínar. Styðjið þær í draumum sínum og væntingum til lífsins. Takið utan um þær, verið til staðar og hlustið á það sem þær segja.

Við sem foreldrar verðum að gera okkur grein fyrir mikilvægi þessa hlutverks. Við megum ekki sofna á verðinum. Látum börn okkar setja sér markmið útfrá þeim draumum sem þau eiga og hjálpum þeim að fylgja þeim eftir.

Að kenna börnum að setja sér markmið getur hjálpað þeim við svo margt.
Stöndum saman og upplifum drauma okkar.

[useful_banner_manager_banner_rotation banners=5,6 interval=4 width=640 height=240 orderby=rand]

900

Athugasemdir

Mega konur taka fyrsta skrefið í átt að hjónabandi!

Next Story »

Út frá þessum aðstæðum fór ég að taka eftir óöryggi hjá börnum mínum.