903513-alcoholic

“Áfengið sem þú drekkur í dag, er lán hamingjunnar á morgun”

21alcaHæ ég heiti Halldóra Rut og ég er alkahólisti.
Ég hef aldrei sagt þessa setningu í jafn innilegri meiningu og akkurat núna. Ég hef alltaf lifað í skömm yfir því að vera alkahólisti og kemur hún mikið út frá þeirri mynd sem samfélagið gefur okkur af þeim. Fyrir mér hefur samfélagið túlkað þá sem eru fíklar eða alkahólistar, sem menn eða konur, liggjandi á hlemm með flöskuna í annarri hendinni og hálfreykta sígarettu í hinni dauð áfengisdauða. En ég er það ekki, ég er móðir stráks sem er að verða 4 ára í desember, ég á fjölskyldu, frekar stóra og mikla ætt, yndislegan kærasta og helling af góðum vinum. Ég er í góðri vinnu og bý á góðum stað. En samt er ég alkahólisti.

Ég skammaðist mín alltaf fyrir að vera eins og ég er. En samt sýndi ég enga miskun þegar ég dæmdi fólkið í kringum mig, þessi var alkahólisti en ekki þessi. Það tók mig hálft ár edrú, að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég væri alkahólisti, það tók mig annan mánuð að þora að tala um það að ég væri ein af þeim. Afhverju ætti ég að lifa í skömm yfir því að hafa galla? Yfir því að ég sé vanmáttug gagnvart áfengi og fíkniefnum?

12alcahol12

Á meðan ég skrifa þessa grein sit ég fyrir framan tölvuna mína, eins berskjölduð og ég gæti hugsanlega verið. Ég hugsa mikið um það hversu marga ég hef sært til þess að komast á þann stað sem ég er núna, á staðinn sem ég er tilbúin til þess að sætta mig við það að ég get ekki breytt því hvernig ég er. Og trúið mér, ég er búin að reyna mitt allra besta – í 8 ár, er ég búin að reyna.

Edrúdagurinn minn er 19.september 2014, sem þýðir að ég er búin að vera edrú í 8 mánuði, 1 viku og 2 daga. Ég var 14 ára þegar ég byrjaði að drekka og það leið ekki langur tími þangað til ég leiddist út í fíkniefni. Ég er búin að fara í eina meðferð á Vog og er í AA samtökunum. Ég leit alltaf á AA samtökin sem stað fyrir fólk sem er heilaþvegið. Heilaþvegið af því að trúa á eitthvað sem er ekki til og því að það sé að fara að hjálpa þeim. En eins erfitt og það er að viðurkenna það, þá hefur mér aldrei skjátlast jafn mikið. Ég er þakklát fyrir að mér hafi skjátlast. Inn í þessum samtökum er fólk alveg eins og ég. Fólk sem gat ekki séð sólina fyrir vímuefnum og rassgatinu á sjálfum sér (Afsakið orðbragðið). En það sem meira er – þetta er fólk sem kann ekki að lifa án áfengis og hagar sér illa með og án áfengis, en þráir að lifa eins og hinir í samfélaginu.

Ég fæ oft spurningar eins og “ertu viss um að þú sért alki?”, “afhverju helduru að þú sért það?”, “viltu ekki bara fá þér einn?”. Ástæðan fyrir því að ég er alkahólisti er ekki sú að mér finnist ekki gaman að drekka, alls ekki! Heimurinn breytist þegar ég drekk, verður bjartari og opnari. En þegar ég fæ mér drykk eða fíkniefni þá hætti ég ekki fyrr en ég ákveð að hætta (sem er yfirleitt ekki fyrr en of seint). Ég er ekki eins og aðrir, ég var hætt að skemmta mér, lífið var farið að snúast um helgarnar, sem voru hjá mér ekki frá föstudegi til sunnudags eins og hjá öðrum. Nei, helgarnar mínar voru frá fimmtudegi til þriðjudags. Ég laug, sveik og stal. Það gerði það að verkum að ég týndi manneskjunni sem ég er, týndi persónuleikanum mínum og í leiðinni týndi ég hamingjunni.

Mér var kennt að það skiptir ekki öllu máli hvað þú gerir þegar þú ert undir áhrifum, heldur hvernig þú hagar þér í milli tíðinni. Í dagana á milli þess að þú varst undir áhrifum og verður aftur undir áhrifum. Í mínu tilfelli var það hræðinlegt, ég naut þess ekki að lifa en ég lifði fyrir helgarnar og það var það sem hélt mér gangandi. Ekki strákurinn minn, fjölskyldan, vinnan eða annað, heldur þær og “skemmtunin” í kringum þær. Sem betur fer í dag veit ég betur og ég myndi ekki fyrir mitt litla líf óska neinum að vera á þeim stað sem ég var á, bæði félagslega og andlega.

1212alca

“Áfengið sem þú drekkur í dag, er lán hamingjunnar á morgun”
Ég ætla ekki að lifa annan hvern dag í hamingju, ég tók þá ákvörðun snemma í morgun, að í dag ætla ég að lifa alla daga hamingjusöm. Ég læri eitthvað nýtt á hverjum degi, í rauninni er ég eins og barn að læra að labba eða tala upp á nýtt. Ég veit ég á ennþá langt í land en það er ekki það sem skiptir máli, það sem skiptir máli er að hætta aldrei að trúa á þig sjálfan og leyfðu öðrum að hjálpa þér, því í flestum tilfellum er þetta ekki eins manns verk.

Í dag er ég þakklát, fyrir 8 mánuðum vissi ég varla hvað þakklæti væri. En í dag, þá er ég virkilega þakklát. Ég gæti hlaupið upp að öllum og knúsað þá og kysst af innilegu þakklæti. Þá meina ég líka þá sem ég hef aldrei þolað og þakkað þeim fyrir að kenna mér tilfinningar eins og reiði, takk fyrir að kenna mér vanmátt – ég vissi ekki einu sinni hvað það orð þýddi fyrir stuttu. Takk fyrir að kenna mér að læra á sjálfa mig. Takk fyrir að vera til!

Ég er svo þakklát fyrir alla sem ég á að! Fjölskyldu mína, vini, kærastann og strákinn. Og ég er svo mikið þakklát fyrir sponsorinn minn! Loksins hafði einhver kjark í það að segja mér að ég væri bara með frekju og yfirgang (eða kannski loksins hlustaði ég á það).

Áfram ég ! Áfram þú ! Áfram allir !

halll55

900

Athugasemdir

“Börn eru ekki vopn, þau eru manneskjur” – Kómískar

Next Story »

Elsku konur, þið eruð alveg að verða óþarfar!